Standa frammi fyrir 1.000 bita púsli

Sigurlaug Hreinsdóttir, móðir Birnu Brjánsdóttur, á fundinum í dag ásamt …
Sigurlaug Hreinsdóttir, móðir Birnu Brjánsdóttur, á fundinum í dag ásamt Ágústi Svanssyni, aðalvarðstjóra (2. f.h.). mbl.is/Golli

Lögreglan er áfram á fullu að greina gögn og feta sig áfram í gegnum þær mögulegu vísbendingar sem hafa borist um hvarf Birnu Brjánsdóttur, sem ekki hefur sést síðan aðfaranótt laugardags. Þetta segir Ágúst Svansson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og yfirmaður leitar og björgunar.

Hann segir engar vísbendingar hafa komið fram í kvöld sem hafi getað þrengt hringinn í leitinni, en fjölmargir verslunar- og húsnæðiseigendur í miðbænum hafi þó veitt lögreglu aðgang að myndbandsupptökum frá Laugavegi. Segir hann alla sem búi yfir öryggiskerfi á þeim slóðum sem síðast sást til Birnu í miðbænum hafa verið mjög hjálplega. „Fólk er með þann hug að vilja hjálpa til,“ segir Ágúst.

Eins og komið hefur fram í fréttum í dag hefur lögreglan ekki á miklu að byggja við rannsókn málsins. Líkir Ágúst því við að standa frammi fyrir 1.000 bita púsli. Hann segir mikilvægt að allir sem gætu haft minnstu hugmynd eða ábendingu um málið eða gætu hafa séð eitthvað, láti lögreglu vita strax. „Ef við náum að púsla öllum 1.000 púslunum saman sjáum við kannski eitthvað,“ segir hann og viðurkennir að það séu allir frekari ruglaðir í höfðinu yfir þessu máli, enda vanti enn stærstan hluta púslanna.

Birna Brjánsdóttir.
Birna Brjánsdóttir. Facebook

Ágúst segir að þannig sé lítið hægt að fullyrða um eitt né neitt í málinu og ekkert enn komið fram sem bendi til þess að neitt saknæmt hafi átt sér stað.

Lögreglan lýsti fyrr í dag eftir rauðri Kia Rio-bifreið, en á myndbandsupptökum hefur ekki enn tekist að greina númer bílsins, eða hvort einn eða fleiri hafi verið í bílnum. Þá sagði Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í Kastljósi í kvöld að ekki liti út fyrir að sá bíll hafi stoppað þar sem síðast sást til Birnu, en hann hafi farið á milli myndavéla við Laugaveg á 15 sekúndum og það væri eiginlega of stuttur tími til að hægt væri að stöðva bifreiðina og taka upp farþega og halda áfram. Lögreglan vildi þó ná tali af bílstjóranum sem vitni.

Ágúst segir að nú vinni Samgöngustofa að því að greina bíltegundina, en meðal annars er horft til þess að ökumaður bílsins kunni að vera erlendur og því ekki kunnað íslensku. Þannig segir Ágúst að haft hafi verið samband við bílaleigur vegna málsins.

Blaðamannafundur lögreglunnar vegna hvarfs Birnu Brjánsdóttur.
Blaðamannafundur lögreglunnar vegna hvarfs Birnu Brjánsdóttur. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Rannsóknardeild lögreglunnar hefur verið á ferðinni í allan dag til að skoða ábendingar en án árangurs og þá segir Ágúst að leit björgunarsveita hafi ekki heldur skilað neinum árangri. Eru leitarmenn þaðan að klára síðustu leitarsvæði upp í Heiðmörk, en augu lögreglu beindust þangað eftir að búið var að greina boð úr síma Birnu sem síðast kom inn á sendi í Hafnarfirði. Er talið mögulegt að keyrt hafi verið upp Flóttamannaleið milli Garðabæjar og Hafnarfjarðar, en óvíst er þó hvort Birna hafi á þeim tíma verið með símann í sínum fórum.

Leitað var í Heiðmörk í kvöld.
Leitað var í Heiðmörk í kvöld. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert