Leitin að Birnu í hnotskurn

Kort/Loftmyndir-mbl.is

Birna Brjánsdóttir kvaddi föður sinn, sem hún býr með í Breiðholti, á föstudagsmorgun eins og venjulega. Um kvöldið fór hún ásamt vinkonu sinni í miðbæ Reykjavíkur. Þær spiluðu á Nora Magasin og fóru svo á skemmtistaðinn Húrra við Tryggvagötu til að dansa. Birna sást síðast á eftirlitsmyndavél við Laugaveg 31, undir morgun á laugardag.

Síðan þá hefur ekkert til hennar spurst. 

Föstudagskvöld 13. janúar:

„Þetta var fullkomlega eðlilegt kvöld,“ sagði Matthildur Soffía Jónsdóttir, vinkona hennar í samtali við Stöð 2. 

Matthildur og Birna voru saman á Húrra til kl. 2 um nóttina eða þar til Matthildur ákvað að fara heim. Birna varð eftir á staðnum ásamt sameiginlegri vinkonu þeirra.

Laugardagsmorgunn 14. janúar:

Um kl. 5 fór hún ein síns liðs út af Húrra. Birna sést svo í eft­ir­lits­mynda­vél­um ganga ein aust­ur Aust­ur­stræti, Banka­stræti og Lauga­veg að húsi nr. 31 þar sem hún hverf­ur sjón­um um kl. 05:25. 

Á mynd­um úr eftirlitsmyndavélum má sjá rauða fólks­bif­reið, sem senni­lega er af gerðinni Kia Rio, ekið vest­ur Lauga­veg á móts við hús nr. 31 kl. 05:25, á sama tíma og Birna var þar á ferð. Lögreglan hefur í tvo daga óskað eftir því að bílstjórinn gefi sig fram en án árangurs.

Í frétt Frétta­blaðsins í morg­un kem­ur fram að talið sé ólík­legt, en þó ekki úti­lokað, að Birna hafi farið upp í bíl á Lauga­vegi. 

Í frétt Frétta­blaðsins seg­ir að þegar Birna var stödd við Klapp­ar­stíg var sími henn­ar tengd­ur við síma­mast­ur í hús­næði Máls og menn­ing­ar við Lauga­veg. Stuttu síðar teng­dist hann við mast­ur við Lind­ar­götu. Það er talið geta bent til þess að hún hafi ekki gengið áfram upp Lauga­veg held­ur beygt niður á Hverf­is­götu. Þar eru færri eft­ir­lits­mynda­vél­ar. Skömmu síðar teng­dist sím­inn við mast­ur á gamla Landsbanka­hús­inu á horni Baróns­stígs og Lauga­veg­ar. Nokkr­um mín­út­um síðar teng­dist hann svo við síma­mast­ur við Lista­há­skól­ann á horni Sæ­braut­ar og Laug­ar­nes­veg­ar. Út frá þess­um gögn­um, sem Frétta­blaðið vís­ar til, er talið að þá hafi Birna verið kom­in í öku­tæki á ferð.

Síðasta merki frá síma henn­ar var numið í mastri við Flata­hraun í Hafnar­f­irði. Það var um klukkan sex að morgni laugardags.

Í kjöl­farið er slökkt hand­virkt á sím­an­um.

Laugardagur 14. janúar:

Birna mætti ekki til vinnu í Hagkaup í Kringlunni að morgni laugardagsins. Var þá haft samband við foreldra hennar sem höfðu svo samband við lögregluna. Lögreglan lýsti eftir Birnu seint um kvöldið.

Sunnudagur 15. janúar:

Sjálfboðaliðar, m.a. vinir og ættingjar Birnu, hófu strax leit það kvöld og um nóttina og allan næsta dag. Opnuð var Facebook-síða þar sem fólk deildi því hvar það væri að leita. Fólk leitaði í miðbæ Reykjavíkur, í Hafnarfirði og víðar.

Mánudagur 16. janúar:

Í gærmorgun, mánudaginn 16., fékk lögreglan aðstoð sérþjálfaðra björgunarsveitarmanna við leitina að Birnu. Leitað var meðal annars í 300 metra radíus frá staðnum á Laugavegi þar sem hún sást síðast á eftirlitsmyndavélum.

Mánudagskvöld og þriðjudagsmorgunn 16.-17. janúar:

Seint í gærkvöldi fundu svo sjálfboðaliðar sem voru við leit skópar við birgðastöð Atlantsolíu við Hafnarfjarðarhöfn. Skóparið er af sömu tegund og Birna á. Ítarleg leit var gerð á svæðinu í nótt en án árangurs. Var svæðið lokað á meðan lögreglan leitaði frekari vísbendinga.

Leitinni að Birnu er áframhaldið í dag, aðallega við höfnina í Hafnarfirði.

Tugir björgunarsveitarmanna, sjálfboðaliða og lögreglumanna hafa komið að leitinni að Birnu. Sporhundar hafa verið notaðir sem og þyrla Landhelgisgæslunnar. Í morgun voru svo kallaðir til kafarar, drónar flugu yfir svæðið og kafbátur verður nýttur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert