Nefndarmönnum efnahags- og viðskiptanefndar bárust í dag þær fregnir að forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, ætlaði ekki að koma á fund nefndarinnar til þess að ræða framgöngu sína við birtingu skýrslu um mat á umfangi eigna Íslendinga á aflandssvæðum. Ráðherra telur sig ekki hafa meira um málið að segja á þessu stigi en lýsti því yfir að hann væri reiðubúinn til þess að taka þátt í umræðum um málið á vettvangi Alþingis eftir að þingið kæmi saman 24. janúar næstkomandi.
Smári McCarthy, fulltrúi Pírata í efnahags- og viðskiptanefnd, sendi frá sér tilkynningu til nefndarmanna eftir tíðindi dagsins þar sem hann segir það ótækt að forsætisráðherra vilji ekki gera grein fyrir verkum sínum fyrir nefndinni.
„Mér finnst algjörlega ótækt að forsætisráðherra vilji ekki gera grein fyrir verkum sínum fyrir nefndinni. Með slíkri neitun vegur hann að eftirlitshlutverki Alþingis. Það að hafa veitt fjölmiðlum svör er allt annað en að hafa veitt þinginu viðunandi svör. Ég ítreka því ósk um fund með forsætisráðherra vegna málsins,“ segir Smári.
Í tilkynningunni segir að í ljósi þess að umboðsmaður hafni því að taka fyrir meint brot fjármálaráðherra gegn siðareglum ráðherra sé nauðsynlegt að ráðherra standi fyrir verkum sínum gagnvart þinginu. Þingflokkur Pírata mun funda um málið á morgun en Birgitta Jónsdóttir, kafteinn Pírata, tekur undir þá ósk Smára McCarthy að forsætisráðherra mæti á fund efnahags- og viðskiptanefndar og standi fyrir máli sínu.
„Það er sjálfsögð krafa að ráðherra gegni lögbundnu hlutverki sínu gagnvart þinginu og skylda þingmanna að veita framkvæmdavaldinu aðhald, eins og lög gera ráð fyrir, í þeim tilgangi að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna,“ segir Birgitta.