Fjórði maðurinn handtekinn

Polar Nanoq lagði að bryggju við Hafnarfjarðarhöfn í gærkvöldi.
Polar Nanoq lagði að bryggju við Hafnarfjarðarhöfn í gærkvöldi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Fíkniefni fundust um borð í Polar Nanoq í nótt. Þrír skipverjar voru handteknir í gærdag og í nótt var einn maður til viðbótar handtekinn. Fjórir úr áhöfn skipsins eru því nú í haldi lögreglu í tengslum við rannsókn á hvarfi Birnu Brjánsdóttur.

RÚV sagði fyrst frá fíkniefnafundinum. Einar Guðberg Jónsson lögreglufulltrúi staðfesti þá frétt í samtali við mbl.is en vildi ekki segja hvers konar efni eða hversu mikið magn hefði fundist.

Hann sagði hins vegar, við mbl.is, að fjórði maðurinn hefði verið handtekinn í skipinu í nótt. 

- Tengist sú handtaka fíkniefnafundinum eða hvarfinu á Birnu?

„Þetta tengist allt,“ segir Einar.

Að sögn Gríms Grímssonar yfirlögregluþjóns er einn mannanna fjögurra sem handtekinn hefur verið eingöngu grunaður um að eiga aðild fíkniefnamálinu. Einn hinna mannanna þriggja er talinn eiga hlutdeild í báðum málum. Eins og sakir standa eru málin rannsökuð sem tvö aðskilin mál. Þá segir hann að á þessari stundu séu engar yfirheyrslur í gangi.  

Starfsmenn frá tollstjóra voru meðal þeirra sem fóru um borð í togarann er hann kom til hafnar í Hafnarfirði í gærkvöldi. Það voru þeir sem fundu efnin sem um ræðir.

Tveir karlmenn, báðir skipverjar af Polar Nanoq, voru í dag úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald vegna hvarfs Birnu. Þeir eru báðir grunaðir um refsiverða háttsemi. Þriðji maðurinn, sem var handtekinn í gær, er enn í haldi lögreglu en ekki hefur verið tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir honum.

Fjórði maðurinn, sem handtekinn var í nótt, hefur enn ekki verið yfirheyrður.

Hlé var gert á leit á Strandarheiði í dag. Verið er að vinna að nýju aðgerðarplani áður en leit verður framhaldið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert