Gæti hafa fennt að skónum

Birna Brjánsdóttir sást síðast á eftirlitsmyndavél á Laugavegi að morgni …
Birna Brjánsdóttir sást síðast á eftirlitsmyndavél á Laugavegi að morgni laugardagsins 14. janúar. Á sama tíma sást rauður bíll, líklega af gerðinni Kia Rio, á veginum. Myndir/Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn, segir það alveg mögulegt að skóm Birnu Brjánsdóttur hafi verið komið fyrir við höfnina í Hafnarfirði áður en togarinn Polar Nanoq lagði úr höfn að kvöldi laugardags. Athygli hefur vakið að snjór var undir skónum er þeir fundust, en enginn snjór var í borginni er Birna hvarf á laugardagsmorgun. Til skoðunar er að Birna hafi ekki farið sjálf úr skónum á þessum stað, heldur að þeim hafi verið komið þar fyrir.

Þetta sagði Grímur í viðtali við Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun. Hann sagði að strax eftir að skórnir fundust við birgðastöð Atlantsolíu á mánudagskvöld hefði snjórinn undir þeim vakið athygli.

„Við fengum upplýsingar um það frá þeim mönnum sem fundu skóna að þegar þeir komu að þeim að þá voru þeir þaktir snjó þannig að það virðist nú bara hafa verið þannig að það hafi snjóað að þeim, skafið að þeim með þeim hætti að svona hafi snjórinn endað á skónum. Þannig að við höfum ekki verið að leggja neina áherslu á það að þeim hafi verið komið fyrir þarna með öðrum hætti. Hins vegar er alveg ljóst og það er alveg til skoðunar að Birna hafi ekki farið úr skónum þarna heldur að þeim hafi verið komið þarna fyrir.“

Spurður hvort það hafi þá mögulega verið gert til að villa um fyrir lögreglu svaraði Grímur: „Það er mögulegt að það hafi verið gert í þeim tilgangi.“

Í framhaldi af þessu var Grímur spurður hvort verið væri að rannsaka hvort einhver annar, sem ekki fór um borð í skipið að kvöldi laugardags, ætti aðild að málinu.

„Ég ítreka það að það er alveg opið, aðild einhverra sem voru ekki í skipinu. Það var hins vegar alveg mögulegt að koma fyrir skóm áður en skipið fór.“

Birna sást síðast á eftirlitsmyndavél á Laugavegi kl. 5.25 aðfaranótt laugardags. Síðustu merki frá símanum hennar voru numin á fjarskiptamastri í Flatahrauni í Hafnarfirði rétt fyrir kl. 6 sama morgun. 

Polar Nanoq lagði svo úr höfn að kvöldi laugardags en þann dag sást til rauðrar bifreiðar fara nokkrum sinnum til og frá Hafnarfjarðarhöfn. Er bíllinn kom að togaranum milli kl. 6 og 6.30 um morguninn, rétt eftir að slökkt var handvirkt á síma Birnu, voru tveir menn í honum. Það sást á upptökum öryggismyndavélakerfis Hafnarfjarðarhafnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert