Leit hætt í bili

mbl/Grunnkort: Loftmyndir ehf.
mbl/Grunnkort: Loftmyndir ehf. mbl

„Við höfum lokið verkefnum þar og okkar fólk á leiðinni til baka,“ segir Guðbrandur Örn Arnarsson, aðgerðarstjóri hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg, í samtali við mbl.is en leit hefur staðið yfir að undanförnu á Strandarheiði á Reykjanesi að Birnu Brjánsdóttur sem saknað hefur verið síðan um helgina. Þar var fylgt eftir einni af mörgum vísbendingum sem borist hafa.

„Það eru engir aðrir leitarhópar úti og það er ekki komin nein konkret áætlun um framhaldið. Það er verið að ákveða næstu skref og fara yfir vísbendingar,“ segir hann. Verið sé að greina upplýsingar og meta hvort ástæða sé til þess að hefja leit annars staðar.

Ágúst Svansson aðalvarðstjóri segir að nú verði tekið hlé á leitinni. Engar vísbendingar, hvorki um bílferðir né annað, sem gagnast geti í rannsókninni á hvarfi Birnu hafi komið fram við leitina á Strandarheiði. Hann segir óvíst hvenær leitinni verði áframhaldið.

Nú verði farið yfir fleiri vísbendingar sem hafi borist og staðan metin út frá því.

„Við gerum núna hlé á meðan verið er að skoða nýjar vísbendingar,“ segir Ágúst en fram hefur komið að stöðugt berist vísbendingar vegna hvarfsins og að þær séu allar greindar, metnar og skoðaðar ef tilefni þyki til.

„Við ætlum aðeins að ná upp orku og gera okkur klár í næstu skref,“ segir hann. „Svo bara að halda áfram.“

Hann segir að nú sé veðrið að versna, farið sé að snjóa töluvert. Það setji líka ákveðið strik í reikninginn.

Sex leituðu á Strandarheiði

Sex björgunarsveitarmenn leituðu á Strandarheiði. Við leitina voru notaðir fjórir hundar, bæði snjóflóðaleitarhundar og víðavangsleitarhundar.

Að sögn björgunarsveitarmanna á staðnum voru aðstæður til leitar mjög erfiðar.

Földu sig í hrauninu

Hundarnir sem notaðir voru við leitina eru þjálfaðir í að finna manneskjur. Eftir að leitinni að Birnu var hætt á Strandarheiði földu tveir björgunarsveitarmenn sig á mismunandi stöðum í hrauninu þangað til hundarnir fundu þá, til þess að halda hundunum við efnið.

Að lokinni leitinni á Strandarheiði þegar verið var að þjálfa …
Að lokinni leitinni á Strandarheiði þegar verið var að þjálfa hundana. mbl.is/Ófeigur
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert