Umsækjendur frá 56 ríkjum

Þeir sem sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi árið …
Þeir sem sóttu um alþjóðlega vernd hér á landi árið 2016 komu frá alls 56 ríkjum. mbl.is/Árni Sæberg

Árið 2016 bárust Útlendingastofnun 1.132 umsóknir um alþjóðlega vernd frá ríkisborgurum 56 ríkja, auk ríkisfangslausra. Langflestir umsækjenda voru frá Makedóníu, eða 468, og Albaníu, 231.

73 Írakar sóttu um alþjóðlega vernd, 42 Georgíumenn og 37 Sýrlendingar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Útlendingastofnun.

Um er að ræða gríðarlega fjölgun milli ára en 2015 nam heildarfjöldi umsókna um alþjóðlega vernd 354. Samkvæmt Útlendingastofnun skýrist fjölgunin ekki eingöngu af fjölda umsókna einstaklinga frá Makedóníu og Albaníu. „Ef frá eru taldar umsóknir frá ríkisborgurum landanna tveggja var fjöldi umsókna tvisvar sinnum meiri árið 2016 (433) en árið 2015 (219).“

Af umsækjendum voru 73% karlar og 27% konur. 76% umsækjenda voru fullorðnir en 24% börn. Umsóknir frá fylgdarlausum ungmennum voru 18.

Afköst stofnunarinnar margfölduð

„Afgreiðsla mála hjá Útlendingastofnun hélt í við fjölda nýrra umsókna á fyrstu sjö mánuðum ársins. Umsóknum fjölgaði mjög hratt á síðari hluta ársins, úr 67 í ágúst í 256 í nóvember sem var stærsti mánuður ársins. Með nýráðningum og tilfæringum á starfsfólki til eflingar svokallaðs forgangsteymis tókst að margfalda afköst stofnunarinnar á sama tímabili, úr 39 afgreiddum málum í ágúst í 196 afgreidd mál í nóvember,“ segir í tilkynningu Útlendingastofnunar.

Niðurstaða fékkst í 977 umsóknir árið 2016 en af þeim voru 548 mál tekin til efnislegrar meðferðar, 224 mál afgreidd með endursendingu á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar og 46 umsækjendum synjað þar sem þeir höfðu þegar fengið vernd annars staðar. 159 drógu umsóknir sínar til baka.

Flóttamenn þvo sér við yfirgefin vöruhús í Belgrad.
Flóttamenn þvo sér við yfirgefin vöruhús í Belgrad. AFP

„Af þeim 548 málum þar sem rannsakað var hvort umsækjandi ætti rétt á vernd hér á landi voru 193 mál (35%) afgreidd á grundvelli hefðbundinnar efnismeðferðar og 355 mál (65%) afgreidd á grundvelli forgangsmeðferðar. Til forgangsmeðferðar eru annars vegar teknar umsóknir sem líklegt þykir að verði samþykktar og hins vegar svokallaðar bersýnilega tilhæfulausar umsóknir frá ríkisborgurum ríkja þar sem einstaklingar eiga almennt ekki á hættu að vera ofsóttir eða verða fyrir alvarlegum mannréttindabrotum (sjá lista Útlendingastofnunar yfir örugg upprunaríki).

Heildarhlutfall veitinga af öllum málum sem tekin voru til efnislegrar meðferðar var 20%. Hlutfall veitinga í hefðbundinni efnismeðferð var 33% og 13% í forgangsmeðferð. Hátt hlutfall synjana, ekki síst í forgangsmeðferð, skýrist af þeim mikla fjölda umsókna sem afgreiddar voru frá ríkisborgurum Albaníu og Makedóníu sem bæði eru á lista yfir örugg ríki. Um 68% allra mála sem tekin voru til efnislegrar meðferðar voru vörðuðu Albani og Makedóníumenn.

Flestar veitingar á árinu voru til umsækjenda frá Írak (28), Sýrlandi (18) og Íran (14) og flestir þeirra sem fengu synjun komu frá Albaníu (190) og Makedóníu (184), eða 85% allra þeirra sem var synjað um vernd hér á landi.“

313 fylgt úr landi af stoðdeild Ríkislögreglustjóra

Meðalmálsmeðferðartími afgreiddra umsókna var 65 dagar á fjórða ársfjórðungi. Afgreiðslutími mála í forgangsmeðferð lengdist úr 27 dögum að meðaltali á þriðja ársfjórðungi í 41 dag á fjórða ársfjórðungi. Á sama tíma fjölgaði afgreiddum forgangsmálum úr 70 í 232.

„Meðalafgreiðslutími allra afgreiddra umsókna á árinu var 80 dagar (818 mál). Að meðaltali tók 85 daga að afgreiða umsókn um vernd á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar árið 2016 og 79 daga að afgreiða mál á grundvelli efnismeðferðar, 142 daga í hefðbundinni efnismeðferð og 36 daga í forgangsmeðferð.“

Stoðdeild Ríkislögreglustjóra fylgdi 313 einstaklingum úr landi árið 2016. 44 aðrir yfirgáfu landið sjálfviljugir með stuðningi Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar og 89 með beinum stuðningi frá Útlendingastofnun.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert