Dæmdur fyrir gróft ofbeldi

mbl.is/G.Rúnar

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur dæmt mann í tíu mánaða fangelsi og til að greiða konu 600 þúsund krónur í miskabætur fyrir gróft ofbeldi sem hann beitti hana árið 2015. Dómur féll í málinu í gær, 19. janúar 2017.

Í ákæru kemur fram að maðurinn sé ákærður fyrir að hafa ítrekað slegið og sparkað í höfuð og líkama konunnar og lamið hana með reipi sem bundið var í lykkju með hnút, allt með þeim afleiðingum að hún nefbrotnaði og hlaut ýmsa áverka á höfði og andliti og yfirborðsáverka á handleggjum, höndum, fótleggjum, rassi, brjóstum og baki.

Við réttarhöldin kom fram að lögreglu hefði borist tilkynning um unga konu með mikla áverka á andliti eftir árás á bílastæði í Reykjavík árið 2015. Í frumskýrslu lögreglu segir að konan hafi verið á vettvangi og greint frá því að hún hafi verið slegin með hafnaboltakylfu í andlitið 2-3 sinnum. Taldi hún sig vera nefbrotna. Hún gat litlar upplýsingar aðrar gefið og var í annarlegu ástandi vegna fíkniefnaneyslu auk þess sem hún bar fyrir sig minnisleysi. Hún var flutt með sjúkrabifreið til aðhlynningar á slysadeild. Sneiðmyndataka leiddi í ljós beinbrot í andliti hennar. Konan var með áverka við kynfæri og taldi að sér hefði verið nauðgað.

Konan sagði við lögreglu að hún tryði því ekki að maðurinn hefði gert henni þetta með ásetningi enda þau verið í nánu sambandi. Hann væri andlega vanheill og stundum í geðrofi. Í slíku ástandi gerði hann oft hluti sem hann ætlaði sér ekki að gera. 

Konan kærði í kjölfarið manninn fyrir líkamsárás og kynferðisbrot. Hann hefði ráðist á hana og sakað hana um að hafa stolið frá sér fíkniefnum. Man hún lítið eftir það og fékk „black out“. Kvað hún hann hafa verið með reipisbolta í höndunum.

Maðurinn var yfirheyrður árið 2015 og neitaði hann því þá alfarið að hafa beitt konuna ofbeldi. Þau hefðu hist þar sem hún hafði í hótunum við hann. Kvað hann hana hafa stolið frá honum peningum og fíkniefnum kvöldið áður.  Þau hefðu lent í átökum en hún hefði slegið fyrst til hans og hann svarað í sömu mynt. 

Gróft ofbeldi og ásetningsbrot

Í niðurstöðu dómara kemur fram að þau bæði sem og vitni sem leidd voru fyrir réttinn hafi að eigin sögn verið undir áhrifum fíkniefna og skýra þannig minnisleysi sitt sem er að hluta eða algert.

Dómurinn telur sannað að maðurinn hafi beitt konuna ofbeldi umrætt sinn með því að slá hana í höfuðið í eitt skipti þannig að hún féll í jörðina þar sem áttu sér stað óskilgreind átök. Síðan hafi hann sparkað í líkama hennar í eitt skipti. Ekki sé hins vegar hægt að sanna að hann hafi sparkað eða slegið í höfuð konunnar. Hins vegar sé hafið yfir skynsamlegan vafa að hann hafi ítrekað slegið fórnarlambið í líkamann. Ósannað er hins vegar að reipi hafi verið beitt við ofbeldið.

Að sögn héraðsdómara er brotið gróft og um ásetning hafi verið að ræða. Það að hafa verið undir áhrifum fíkniefna leysi ekki ofbeldismanninn undan ábyrgð. 

Maðurinn á að baki langan sakarferil eða tæp 20 ár. Hann hefur hlotið refsingu fyrir ýmis brot á almennum hegningarlögum, lögum um ávana- og fíkniefni og umferðarlögum. Nú síðast var hann, með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur frá árinu 2014, dæmdur í 12 mánaða fangelsi fyrir umferðarlagabrot og brot á lögum um ávana- og fíkniefni. Hann hefur fimm sinnum hlotið refsingu fyrir vísvitandi ofbeldi eða ofbeldistengd brot.

Fram kom við réttarhöldin að maðurinn  hóf afplánun fangelsisrefsingar fyrir önnur brot eftir árásina 2015 og í gögnum málsins kemur fram að hann hafi hagað sér vel í afplánun, stundað vinnu og nám og verið kurteis og prúður í samskiptum. Þá gekkst hann undir meðferð í afplánuninni og hélt sér við með reglulegum viðtölum. Fyrst töldu atriðin horfa ekki til málsbóta heldur hafa fyrst og fremst þýðingu varðandi þá umbun sem hann kann að hljóta í yfirstandandi afplánun. Hins vegar má líta til þess að maðurinn er að takast á við fíkniefnavanda sinn, segir í niðurstöðu dómara. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert