Lífsýnin tekin úr fatnaði

Polar Nanoq í Hafnafjarðarhöfn. Lífsýnin sem tekin voru um borð …
Polar Nanoq í Hafnafjarðarhöfn. Lífsýnin sem tekin voru um borð í skipinu komu úr fatnaði. mbl.is/Eggert

Lífsýnin sem tekin voru um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq komu af klæðnaði. Þetta staðfestir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is. Hann vill þó ekki gefa upp hverrar gerðar lífsýnin eru.

Áður hefur komið fram að lögregla hafi sent lífsýni utan til greiningar, m.a. blóð sem fannst í rauðu Kia Rio bifreiðinni sem lögregla hefur lagt hald á vegna rannsóknarinnar á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, sem ekkert hefur til spurst frá því aðfaranótt laugardags.

Grímur segir lögreglu hafa talið líklegt alveg frá upphafi að Birna hafi farið upp í farþegasæti bifreiðarinnar til móts við Laugaveg 31. Hann segir sýni þó einnig hafa verið tekin úr skotti bílsins. „Í svona rannsókn eru sýni tekin víða,“ segir hann.

Lögreglu hefur þó enn ekki tekist að tengja Birnu við bílinn. „En rannsóknin byggir á rökstuddum grun um að Birna hafi farið upp í bílinn,“ segir Grímur.

Voru að skemmta sér í miðbænum

Leit lögreglu í Polar Nanoq er enn ekki lokið, en leitin er unnin í góðri samvinnu við eigendur skipsins að sögn Gríms.

Greint var frá því í dag að mennirnir tveir sem úrskurðaðir voru í tveggja vikna gæsluvarðhalds í tengslum við hvarf Birnu, sjáist á eftirlitsmyndavélum í miðbænum áður en Birna hvarf. Grímur segir hafa komið fram við yfirheyrslur að mennirnir hafi verið þar að skemmta sér. Spurður hvort þeir hafi verið undir áhrifum áfengis segir hann: „Annar þeirra var undir áhrifum áfengis, eftir því sem fram hefur komið í framburði.“

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókninni á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, …
Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn sem stýrir rannsókninni á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, segir mennina sem nú eru í gæsluvarðhaldi hafa verið að skemmta sér í miðbænum þegar Birna hvarf. mbl.is/Árni Sæberg

Annar mannanna er um þrítugt að sögn Gríms, en hinn er í kringum 25 ára aldurinn og hafa báðir komið til Íslands áður. Grímur kveðst þó ekki vita hvort þeir séu staðkunnugir. Fram kom í fréttum fyrr í dag að mennirnir útiloki ekki að hafa hitt Birnu, en Grímur segir þó lítið hafa komið fram um hvar það kunni að hafa verið. 

Hafa fengið ábendingar um hvíta bílinn

Engar vísbendingar hafa borist í dag sem hafa þrengt leitarsvæði lögreglu og björgunarsveita. Lögregla auglýsti í dag eftir vísbendingum um rauðu Kia Rio bifreiðina á tímabilinu frá kl. 7–11.30 á laugardagsmorgninum. Grímur segir lögreglu hafa vonast til að geta þrengt leitarsvæðið með þessu móti. „En það hefur ekki tekist,“ segir hann.

Eigandi hvíta bílsins sem lögregla auglýsti eftir í dag og sem ekið var vest­ur Óseyr­ar­braut í kl. 12.24 á laugardeginum hefur þá enn ekki gefið sig fram. Ábendingar um hver hann geti verið hafa þó borist. „Við vitum ekki enn hvaða bíll þetta er, en við fylgjum þessum ábendingum eftir,“ segir Grímur.

Leitarsvæðið hjá björgunarsveitum á morgun.
Leitarsvæðið hjá björgunarsveitum á morgun. mbl

Gríðarstórt svæði er undir í leit björgunarsveita sem hefst í birtingu í fyrramálið. Spurður hvort lögregla telji einhver svæði líklegri en önnur segir Grímur athygli enn beinast að svæðinu í kringum Keili. „Við höfum verið þar undanfarna daga og erum ekki búin að fullklára það. Það verður töluverð áhersla lögð á það.“

Eru að skoða farsímagögn mannanna eftir að Birna hvarf

Undanfarið hefur lögregla verið að rannsaka farsímagögn og segir Grímur það enn vera verk í vinnslu. Ný gögn bætist stöðugt þar við. „Fyrst varðandi símann hennar Birnu og síðan hafa önnur gögn verið að bætast þar við,“ segir hann. Spurður hvort lögregla sé búin að vera að skoða símagögn mannanna á laugardeginum eftir að Birna hvarf segir Grímur svo vera, en að hann geti ekki tjáð sig frekar um það mál. Enginn staðsetningabúnaður var hins vegar í bílnum sjálfum.

Spurður hvort mennirnir séu á sakskrá, segir Grímur: „við höfum verið að afla þessara gagna, en ég hef ekki viljað fara út í það á þessu stigi.“

Rannsókn á farsímagögnum er enn í vinnslu og stöðugt bætast …
Rannsókn á farsímagögnum er enn í vinnslu og stöðugt bætast við nýjar upplýsingar að sögn Gríms Grímssonar yfirlögregluþjóns. mbl

Farið var með mennina á Litla-Hraun undir kvöld er yfirheyrslum dagsins var lokið. og ekki enn verið ákveðið hvenær næstu yfirheyrslur verða. „Við erum búin að yfirheyra þá nokkuð þétt frá því að þeir voru handteknir og síðast nú í dag,“ segir Grímur „Ég reikna því ekki með að við munum yfirheyra þá um helgina, nema að eitthvað nýtt komi upp.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert