Sex sólarhringar frá hvarfi Birnu

Síðast sást til Birnu Brjánsdóttur aðfararnótt laugardags eða fyrir rúmum …
Síðast sást til Birnu Brjánsdóttur aðfararnótt laugardags eða fyrir rúmum sex sólarhringum. mbl

Mennirnir sem eru í gæsluvarðhaldi vegna hvarfs Birnu Brjánsdóttur verða áfram yfirheyrðir í dag, en lögreglan hefur sent rannsóknargögn úr rauðu Kia Rio-bifreiðinni til frekari rannsóknar í útlöndum. Björgunarsveitarmenn voru við leit á Strandarheiði langt fram eftir kvöldi í gær, en stöðufundur svæðisstjórnar og lögreglunnar um framhald leitar verður haldinn klukkan 9 eins og undanfarna daga. 

Ekkert hefur spurst til Birnu frá því hún sást á eftirlitsmyndavélum á sjötta tímanum á laugardagsmorgninum, í rúma sex sólarhringa.

Björgunarsveitarfólk að störfum á Strandarheiði.
Björgunarsveitarfólk að störfum á Strandarheiði. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Tveir skipverjar af togaranum Polar Nanoq voru úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald í gær en saksóknari lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hefur kært úrskurðinn til Hæstaréttar, þar sem farið er fram á lengra gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur vegna alvarleika málsins. Forsendur fyrir beiðni um gæsluvarðhald hafa ekki verið  birtar og því liggur ekki fyrir á hvaða grundvelli beiðni lögreglunnar byggir.

Alls voru fjórir skipverjar handteknir en einn er laus úr haldi og ekki í farbanni enda ekki talið að hann tengist hvarfi Birnu Brjánsdóttur aðfaranótt laugardags. Fjórði maðurinn var í nótt úrskurðaður í gæsluvarðhald til mánudags vegna 20 kg af hassi sem fundust við leit um borð í togaranum aðfaranótt fimmtudags.

„Ég vona að með hverri klukku­stund­inni séum við nær því að finna Birnu. Að það safn­ist í þenn­an sarp upp­lýs­ing­ar sem leiði til þess að við mun­um finna hana,“ sagði Grím­ur Gríms­son yf­ir­lög­regluþjónn í samtali við mbl.is seint í gærkvöldi.

Grím­ur seg­ir rök­studd­an grun vera fyr­ir því að rauða Kia Rio-bif­reiðin sem sást á Lauga­veg­i á svipuðum tíma og síðast sást til Birnu sé sú sama og lög­regla tók til rann­sókn­ar á miðvikudag.

„Frá upp­hafi höf­um við verið að tala um þenn­an rauða Kia Rio sem sést á mjög svipuðum tíma og síðast sést til Birnu í mynda­vél­um. Þannig að ein kenn­ing­in hef­ur verið sú að hún hafi farið upp í þenn­an bíl og að það kunni að vera sami bíll og menn sem við höf­um nú hand­tekið leigðu. Þetta er mynd­in sem við erum að vinna eft­ir.“

Tveir skipverjar af grænlenska togaranum Polar Nanoq eru í gæsluvarðhaldi …
Tveir skipverjar af grænlenska togaranum Polar Nanoq eru í gæsluvarðhaldi grunaðir um að eiga aðild að hvarfi Birnu Brjánsdóttur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Púslið sem vant­ar í mynd­ina er hins veg­ar Birna sjálf og grein­ing­ar­vinna felst nú í því að reyna að sjá bíl­inn og Birnu á mynd­bönd­um sem lög­regla hef­ur fengið af­hent. „Við erum að reyna að kort­leggja för bíls­ins og það er grein­ing á þeim gögn­um sem við erum að horfa til. Púslið sem enn vant­ar er að við þurf­um að staðfesta að það sé raun­veru­lega rétt að Birna hafi farið upp í þenn­an bíl. Það höf­um við enn ekki getað gert.“ Grím­ur seg­ir lög­reglu hins veg­ar vilja benda á að sími Birnu ferðist suður í Hafn­ar­fjörð og að um­rædd­ur bíla­leigu­bíll hafi verið í Hafnar­f­irði.  

Verið er að rann­saka síma mann­anna og seg­ir Grím­ur búið að kanna staðsetn­ingu þeirra. „Það er hluti af þeirri rann­sókn sem er í gangi,“ seg­ir hann en kveðst ekki geta tjáð sig um það hvort farsíma­gögn gefi til kynna að sím­ar mann­anna hafi verið í ná­grenni við síma Birnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert