Flókið að tengja ferðir Birnu og skipverja

Lögregla vinnur í því að bera saman farsímagögn úr síma …
Lögregla vinnur í því að bera saman farsímagögn úr síma Birnu og mannanna sem eru í varðhaldi.

Engin gögn hafa borist til lögreglu í dag sem geta skýrt ferðir rauðrar Kia Rio-bifreiðar á milli 7 og 11 að morgni laugardags fyrir viku. „Okkur vantar enn upplýsingar um þessa eyðu í ferðum bílsins,“ segir Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is.

Eins og fram kom á mbl.is í dag hefur lögregla nokkuð skýra mynd af ferðum rauða bílsins frá Reykjavík til Hafnarfjarðar aðfaranótt laugardags allt til sjö árla morguns á laugardegi. Fjarskiptamastur nemur svo merki úr síma mannanna að nýju um klukkan 11 þann sama dag. Lögregla hefur óskað eftir upplýsingum um ferðir bílsins í þá fjóra tíma sem ekkert merki finnst úr símunum. Fyrir vikið hefur enn ekki tekist að útiloka neitt leitarsvæði en eins og fram hefur komið er svo til allt suðvesturhorn landsins undir.

Skoða tengsl ferða Birnu og mannanna

Spurður hvort búið sé að tengja saman ferðir Birnu og mannanna sem eru í gæsluvarðhaldi með hjálp farsímagagna segir Grímur að unnið sé í því. „Þetta er flókið og framsetningin er flókin til þess að átta sig á því hvað er verið að segja. Það er mjög gott að hafa aðstoð sérfræðinga til þess að lesa úr því,“ segir Grímur.

Ökumaður hvíta bílsins enn á huldu

Þá hefur ekkert spurst til ökumanns hvítrar bifreiðar sem einnig sást til á hafnarsvæðinu í Hafnarfirði. Lögregla vill ná tali af ökumanninum.

Grímur segir að lögregla geti ekki gefið upp hvers vegna þörf þykir á því að tala við ökumann hvíta bílsins sem auglýst hefur verið eftir. „Ég get ekki upplýst um það hvernig við teljum hann tengjast þessu máli,“ segir Grímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert