Gengið með jafnrétti

Hópur kvenna tók þátt í Women's March Reykjavík í dag.
Hópur kvenna tók þátt í Women's March Reykjavík í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Hópur fólks tók þátt í göngunni Women's March Reykjavík í miðborginni í dag en boðað var til göngunnar á Facebook og allir þeir sem styðja jafnrétti boðnir velkomnir. Gangan hófst klukkan 14 og var gengið frá Arnarhóli, eftir Lækjargötu og niður á Austurvöll.

Xárene Eskandar skipulagði gönguna hér á landi. „Það á við hvar sem er í heiminum að halda þessa réttindagöngu, skilaboðin eiga alls staðar við og hún er ekki bara bundin við Bandaríkin,“ segir Eskander. Hún segir gönguna hafa heppnast afar vel í dag og komið skemmtilega á óvart hversu margir ferðamenn tóku þátt. „Lögreglan var líka alveg frábær og stöðvaði umferðina fyrir okkur. Þetta var allt saman svo fallegt, svona ætti lögreglan að vera alls staðar í heiminum,“ segir Eskander.

Hópur kvenna tók þátt í Women's March Reykjavík í dag.
Hópur kvenna tók þátt í Women's March Reykjavík í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Upphaf hugmyndarinnar að kvennagöngunni, sem fer fram víða um heim, má rekja til ömmu nokkurrar á Hawaii, Teresu Shook. Hún er lögfræðingur á eftirlaunum sem kvöld eitt, stuttu eftir að ljóst var að Donald Trump hefði hreppt forsetastólinn, stofnaði síðu á Facebook. Á síðunni stakk hún upp á mótmælum helgina sem Trump yrði svarinn til forseta. Eftir að hún stofnaði síðuna fór hún að sofa. Daginn eftir höfðu 10 þúsund manns tekið undir hugmyndina. Boltinn fór að rúlla og stefnir í fjölmennar göngur víða um heim.

Það voru ekki allir þátttakendur háir í loftinu.
Það voru ekki allir þátttakendur háir í loftinu. mbl.is/Árni Sæberg

Á heimasíðunni womensmarch.com má lesa stefnuyfirlýsingu fyrir viðburðinn. Þar segir „Orðræðan í liðnum kosningum hefur móðgað, gert lítið úr og ógnað mörgum okkar; innflytjendum af öllum gerðum, múslimum og fólki af öðrum trúarbrögðum, fólki sem telur sig til samkynhneigðra eða transfólks, frumbyggja landsins, svörtu og brúnu fólki, fötluðum og þolendum kynferðisbrota, og samfélög okkar eru uggandi og hrædd. Kvennagangan (The Women's March on Washington) mun senda skýr skilaboð til ríkisstjórnarinnar á fyrsta degi hennar í starfi og til heimsins þar sem við segjum að kvenréttindi eru mannréttindi.“

Hópur kvenna tók þátt í Women's March Reykjavík í dag.
Hópur kvenna tók þátt í Women's March Reykjavík í dag. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert