Telur að málið muni ekki skaða samband þjóðanna

Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt
Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég held að þetta muni fjara út. Ég hef ekki trú á því að þetta verði viðvarandi,“ segir Kristjana Guðmundsdóttir Motzfeldt um neikvæð áhrif af máli grænlensku skipverjanna á Polar Nanoq á samskipti Íslendinga og Grænlendinga og andrúmsloftið á milli þjóðanna. Fréttir í vikunni bentu til þess að einhverjir hér á landi væru að skeyta skapi sínu á Grænlendingum almennt vegna málsins.

Dásamleg þjóð

Kristjana þekkir vel til Grænlendinga eftir að hafa verið búsett þar í landi um langt árabil. „Það kom í ljós að verið var að gera úlfalda úr mýflugu í þessum fréttum,“ segir Kristjana. Hún hefur þó áhyggjur af þungum orðum sem látin hafa verið falla í umræðum á netinu.

„Grænlendingar eru dásamlegar manneskjur og glaðir eru þeir í viðmóti. Við getum margt lært af Grænlendingum, m.a. að gleðjast yfir hinu smáa og að maðurinn er hluti af náttúrunni en náttúran sé ekki undirokuð af manninum,“ segir hún.

Hassneysla mikið vandamál

Kristjana segir fréttir um að 20 kg af hassi hafi fundist um borð í Polar Nanoq hafa vakið athygli sína. Um er að ræða gífurlegt magn. Eins og fram hefur komið í Morgunblaðinu er einn skipverja, sem talinn er vörslumaður fíkniefnanna, nú í gæsluvarðhaldi.

„Hassneysla er landlægt vandamál á Grænlandi og rosalegur gróði fylgir því ef tekst að flytja það inn. Hass er víst hvergi dýrara á Vesturlöndum en á Grænlandi og margfalt dýrara en annarstaðar á Vesturlöndum. Sjóleiðin er löngu þekkt leið og margar sögur af því að þegar skip nálgast Grænland er hassinu fleygt fyrir borð og sótt síðar. Sjómennirnir eru væntanlega burðardýr. Fyrir utan áfengi er víst svo til eingöngu um hassneyslu að ræða og sagt er að fólk á Grænlandi komi í veg fyrir önnur efni en hass.“

Kristjana veltir því fyrir hvort íslenska fíkniefnalögreglan sé nógu upplýst um hina mikla hassneyslu á Grænlandi og þurfi ef til vill að grípa til frekari aðgerða þegar grænlensk skip koma hingað til hafnar. „Það er óhugnanlegt að heyra að fleiri kynslóðir í fjölskyldu reyki hass saman; afi, amma, foreldrar og börn,“ segir hún.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert