„Það finnast alls konar hlutir“

Þessir skór eru meðal þess sem hefur orðið á vegi …
Þessir skór eru meðal þess sem hefur orðið á vegi björgunarsveitarfólks í morgun. mbl.is/Eggert

Um 500 björgunarsveitarmenn víðs vegar af landinu taka í dag þátt í leitinni að Birnu Brjánsdóttur, sem ekkert hefur til spurst frá því síðasta laugardag. Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn á höfuðborgarsvæðinu, segir þó enn þá ekkert hafa fundist sem hægt sé að fullyrða að tengist hvarfi Birnu.

„Það finnast alls konar hlutir eins og við bjuggumst við,“ sagði Ásgeir Þór í samtali við mbl.is þegar björgunarsveitir höfðu verið að störfum í rúma þrjá tíma í morgun. „Þegar menn eru að leita í kringum vegi kemur í ljós hvað Íslendingar geta verið miklir umhverfissóðar.“

Ásgeir Þór segir því ferli fylgt við þessa leit að ef eitthvað markvert finnist þá séu rannsóknaraðilar fengnir til að koma og meta hvort þar sé að finna mögulega tengingu við hvarf Birnu.

„Ekkert sem við getum fullyrt að tengist þessu máli“ 

Ásgeir Þór segir leitina í morgun enn sem komið er ekki hafa þrengt leitarsvæðið sem er gífurlega stórt og nær yfir allt Reykjanesið, upp í Borgarfjörð og að Selfossi „Það er ekkert sem við getum fullyrt að tengist þessu máli,“ segir hann.

Um 500 björgunarsveitarmenn leita nú Birnu Brjánsdóttur og vísbendinga um …
Um 500 björgunarsveitarmenn leita nú Birnu Brjánsdóttur og vísbendinga um hvarf hennar. mbl.is/Eggert

Björgunarsveitarmenn voru í morgun við leit á Reykjanesinu, á Hellisheiði og í Þrengslunum. Leit er hins vegar enn ekki hafin í Borgarfirðinum og segir Ásgeir Þór ekki liggja fyrir hvenær hafist verði handa við að leita þar. „Það kemur í ljós. Við erum að forgangsraða leitarsvæðunum og auðvitað vonumst við til þess að klára það sem við höfum áhuga á að klára, en það er ekkert sjálfgefið.“

Leitin gengur engu að síður vel að hans sögn. „Við vorum að vonast til að fá á milli 200-300 björgunarsveitarmenn í leitina í dag, en fengum 500. Þannig að við erum með á bilinu 120-150 leitarhópa úti, sem þýðir að vinnan gengur vel.

Ótrúlegt að verða vitni að þessu

Það er ótrúlegt að verða vitni að þessu viðbragði björgunarsveitanna,“ segir Ásgeir Þór. Hann bætir við að það sýni ekki síður hvað þjóðin stendur heilshugar á bak við leitina að Birnu að fjölmörg fyrirtæki og einstaklingar hafa verið að leggja björgunarsveitunum til mat.

Leitarsvæðið sem fara á yfir þessa helgi er gríðarstórt og …
Leitarsvæðið sem fara á yfir þessa helgi er gríðarstórt og nær yfir allt Reykjanesið, að Selfossi og upp í Borgarfjörð. mbl

„Því það þarf náttúrulega heilmikinn mat til að fæða þetta 500 manna lið. Eins höfum við fengið þær fréttir frá sumum skyndibitakeðjum að þeir björgunarsveitarmenn sem komi í búningi þar inn fái mat hjá þeim svo ekki sé verið að tefja þá. Við finnum fyrir gríðarlegum stuðningi. Það má segja að öll þjóðin sé í þessu með einum eða öðrum hætti.“  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert