Forsetahjónin heimsóttu Marel

Frá heimsókninni í dag.
Frá heimsókninni í dag. mbl.is/Golli

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, og Eliza Reid forsetafrú heimsóttu kynningar- og fræðslumiðstöð Marel á Amager í Kaupmannahöfn í dag.

Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel, hélt stutta tölu áður en Guðni og Eliza voru leidd í gegnum ferli véla sem notaðar eru í vinnslu á laxi en Marel er leiðandi í vélbúnaði varðandi vinnslu á laxi í heiminum. Með í för var hluti af sendinefnd forseta.

Forsetahjónin fengu að sjá í verki bæði skurðarvélar og flokkunarvélar og virtist forsetahjónunum nokkuð mikið til þeirra koma.

Hjá Marel vinna 4.700 starfsmenn, þar af 500 í Danmörku, en vélarnar sem voru sýndar eru íslensk hönnun, en eru framleiddar í Danmörku. 

Formlegri dagskrá í þessari heimsókn Guðna lýkur í kvöld þar sem hann mun bjóða til móttöku til heiðurs Magréti Danadrottningu í menningarhúsinu við Norðurbryggju. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert