Valgerður formaður umhverfisnefndar

Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Valgerður Gunnarsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, hefur verið kjörin formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis. Nefndin kom saman í fyrsta sinn nú í morgun og er fundi hennar nýlokið.

Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, var þá kjörinn 1. varaformaður nefndarinnar og Bryndís Haraldsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokks, 2. varaformaður.

Fulltrúar stjórnarandstöðunnar sátu hjá við kosninguna, segir Ari Trausti Guðmundsson, þingmaður og fulltrúi Vinstri grænna í nefndinni. Vinstri græn lögðu þó fram eftirfarandi bókun:

„Fulltrúar Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs í Umhverfis- og samgöngunefnd lýsa yfir vonbrigðum sínum með það hvernig stjórnarmeirihlutinn hefur haldið á málum er varðar skipan í nefndir og kosningu um forystu þeirra.

Stjórnin sem nú situr er með minnsta mögulega þingmeirihluta, en tekur sér styrk í nefndum langt umfram það. Það er þvert á yfirlýsingar stjórnarliða um samstarf og góða samvinnu, ný og bætt vinnubrögð. Það er miður að stjórnarmeirihlutinn skuli notast við vinnubrögð gamaldags valdapólitíkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert