Landsréttur hugsanlega í Kópavogi

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við ákváðum að óska eftir heimild fyrir því að Landsréttur verði tímabundið til húsa utan Reykjavíkur þar sem gengið hefur illa að finna húsnæði í borginni. Við höfum reyndar fundið húsnæði sem hentar ákaflega vel,“ segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is og vísar þar til húsnæðis við Vesturvör í Kópavogi.

Fram kemur í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar að dómsmálaráðherra hyggist leita heimildar til þess að aðsetur Landsréttar verði tímabundið utan Reykjavíkur en samkvæmt lögum um dómstóla skal hann eiga aðsetur í höfuðborginni. Ennfremur sé til skoðunar að byggja fyrir dómstólinn framtíðarhúsnæði í Reykjavík.

„Þar til slíkt húsnæði er tilbúið verður að finna réttinum húsnæði til bráðabirgða. Lagt er til að það húsnæði verði á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ eða Seltjarnarnesi,“ segir í þingmálaskránni. Sigríður segir að húsnæðið sem hafi fundist sé í eigu ríkisins, hafi áður hýst Siglingamálastofnun en standi nú autt.

Hugmyndir hafa komið fram um að nýta Safnahúsið við Hverfisgötu í Reykjavík fyrir Landsrétt en Sigríður segir að húsnæðið hafi ekki þótt heppilegt. „Sú hugmynd var skoðuð strax í upphafi en það gengur hins vegar ekki upp af tæknilegum og öðrum ástæðum og hentar því engan veginn fyrir þessa starfsemi.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert