Hálka og skafrenningur á Hellisheiði

mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Það er hálka og skafrenningur á Hellisheiði og Lyngdalsheiði og hálkublettir í Þrengslum. Á Suðurlandi er víðast hvar hálka eða hálkublettir, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.

Vaxandi austanátt á landinu í dag með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu, fyrst sunnan til á landinu. Hvassviðri eða stormur sunnan til á landinu seint í kvöld og víða hvassir vindstrengir við fjöll. Talsverð rigning eða slydda um landið suðaustanvert, en annars úrkomuminna. Veðrið fer svo norður yfir landið í nótt og í fyrramálið. Dregur úr vindi og úrkomu á morgun, 8-15 m/s seinnipartinn, en hvassara á Vestfjörðum fram á kvöld. Hlýnar í veðri og hiti 0 til 7 stig þegar kemur fram á morgundaginn, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Hálka er á flestum vegum á Vesturlandi og Vestfjörðum. Hálka er víða á Norðurlandi. Sums staðar er snjóþekja á útvegum. Á  Austurlandi er hálka eða snjóþekja og einhver éljagangur. Ófært er á Breiðdalsheiði og Öxi. Með suðausturströndinni er snjóþekja, hálka og hálkublettir og víða er éljagangur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert