Fleiri greinast með kynsjúkdóma

Óvenju margir, eða sex einstaklingar, greindust með alnæmi í fyrra.
Óvenju margir, eða sex einstaklingar, greindust með alnæmi í fyrra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í fyrra greindust 27 einstaklingar með HIV-sýkingu. 33 tilfelli sárasóttar greindust og 86 tilfelli lekanda. Sóttvarnarlæknir telur brýnt að gripið verði til ýmissa opinberra aðgerða sem miða að því að draga úr fjölgun þeirra sem smitast af kynsjúkdómum.

Í Farsóttarfréttum, fréttabréfi sóttvarnarlæknis, segir að af þeim sem greindust með sárasótt í fyrra hafi 88% verið karlmenn sem stunda kynlíf með öðrum körlum líkt og árin á undan. Meðalaldur þeirra sem sýktust á árinu var 39 ár (aldursbil 20–61 ár).

Lekandatilfellum fjölgar jafnt og þétt

Á undanförnum þremur árum hefur staðfestum lekandatilfellum fjölgað jafnt og þétt. Á árinu 2016 greindust 86 tilfelli, sem er nánast tvöföldun frá fyrri árum. Var það nánast stöðug aukning á fjölda tilfella í hverjum mánuði miðað við sama tíma á árunum 2014 og 2015. Meðalaldur þeirra sem greindust með lekanda í fyrra var 24 ár hjá báðum kynjum, en karlar voru í miklum meirihluta sem fyrr (74%).

„Talið er að smit tengist samkynhneigð í yfir 70% tilfella,“ segir í Farsóttarfréttum. Á árinu reyndust 11 stofnar bakteríunnar vera ónæmir fyrir lyfjunum ciprofloxacini og þrír fyrir azithromycini. Fjölónæmir stofnar af lekandabakteríum hafa þó ekki greinst hér á landi, en víða erlendis er slíkt sýklalyfjaónæmi vaxandi vandamál.

 Klamydía er langalgengasti kynsjúkdómurinn hér á landi en u.þ.b. 2000 tilfelli sem greinast árlega. Mánaðarlegur fjöldi þeirra sem greindust með klamydíu á árinu 2016 var svipaður og á árunum 2014 og 2015. Kynjahlutfallið hefur haldist nokkuð óbreytt á þessum árum, en 60% af þeim sem greindust með klamydíu voru konur. 

Óvenju margir greindust með HIV

Í fyrra greindust óvenju margir með HIV-sýkingu, eða 27 einstaklingar, sem er meira en tvöfalt fleiri en á árunum 2014 og 2015. Af þeim sem greindust voru 20 karlmenn en sjö konur. Fjórtán voru með íslenskt ríkisfang en 13 voru af erlendu bergi brotnir.

Uppruni smits var rakinn til Íslands í þrettán tilvikum en til annarra landa í fjórtán tilvikum. Af þeim sem greindust voru sjö samkynhneigðir (35%), sjö gagnkynhneigðir (35%) en sex voru með sögu um sprautunotkun (30%).

Óvenju margir, eða sex einstaklingar, greindust með alnæmi, sem er lokastig sjúkdómsins. Að auki voru þrír einstaklingar með merki um langt genginn sjúkdóm. Það bendir til þess að margir einstaklingar geta verið lengi með sýkingu af völdum HIV án þess að hennar verði vart og er það áhyggjuefni, að mati sóttvarnalæknis.

„Sóttvarnalæknir telur brýnt að gripið verði til ýmissa opinberra aðgerða sem miða að því að snúa við ofangreindri þróun,“ segir í Farsóttafréttum. „Hann hefur lagt til að auka samvinnu velferðarráðuneytisins og sóttvarnalæknis við heilbrigðiskerfið, skóla kerfið og ýmis grasrótarsamtök eins og HIV-Ísland og Samtökin 78 í þessu skyni og hefur auk þess lagt til að skipaður verði starfshópur til að gera tillögur um aðgerðir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert