Gæti leitt til byltingar á heimsvísu

Virkjanir HS Orku á Reykjanesi.
Virkjanir HS Orku á Reykjanesi. Ljósmynd/HS Orka

Árangur jarðhitaborunar, á tæplega fimm kílómetra dýpi á Reykjanesi, gæti leitt til byltingar í jarðhitaiðnaði á heimsvísu. Þetta segir Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku, sem stóð fyrir boruninni.

Í samtali við mbl.is segir Ásgeir að borað hafi verið niður á 4.650 metra dýpi, en venjan er að bora niður á um 2.500 til 3.000 metra dýpi.

„Við fórum því dálítið mikið dýpra.“

Aðspurður segir Ásgeir að ekki sé vitað hversu heit borholan verði.

„Við vitum það ekki nákvæmlega. Á meðan við vorum að vinna verkið og bora holuna, þá héldum við henni alltaf kaldri með því að dæla köldu vatni niður. En eftir stuttan upphitunartíma, eins og við köllum það, erum við búnir að mæla 427 stiga hita. Við búumst við að hún verði töluvert heitari en það.“

Þar með segir hann að meginmarkmiði verkefnisins hafi verið náð, að komast yfir 400 stiga hita.

Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku.
Ásgeir Margeirsson, forstjóri HS Orku.

Gefur fyrirheit um nýtingu

Þegar komið er niður á þetta dýpi segir hann þá að hægt sé að bora víðar en á háhitasvæðum. Þau geti nefnilega mörg hver verið erfið viðureignar.

„En þetta gefur fyrirheit um nýtingu annarra háhitasvæða, bæði á Íslandi og erlendis, á þetta miklu dýpi. Þetta er svolítill ísbrjótur ef svo má segja, þetta er fyrsta verkefnið í heiminum sem fer á þessar slóðir, í sambandi við hitastig og dýpi,“ segir Ásgeir og bætir við að árangurinn geti leitt til byltingar í þessum iðnaði.

„Stóra markmiðið er náttúrulega að reyna að minnka umhverfisáhrif orkuvinnslunnar, með því að geta komist af með færri holur, og fá vonandi það mikla orku að hlutfallslegur kostnaður verði lægri en hann er í dag.“

Borkjarni sem tekinn var 4.634 metra dýpi.
Borkjarni sem tekinn var 4.634 metra dýpi. Ljósmynd/HS Orka

Tveir plús tveir meira en fjórir

Norska olíu- og gasfyrirtækið Statoil kom að djúpboruninni, og reyndist þekking starfsmanna þess dýrmæt í ferlinu.

„Þeir eru með virkilega víðtæka þekkingu á borunum í djúp jarðlög og við erfiðar aðstæður, þó ekki í jarðhita, og þeirra þekking samanlögð við okkar einfaldlega styrkti verkefnið mjög. Þarna voru tveir plús tveir einfaldlega meira en fjórir,“ segir Ásgeir, og bætir við að verkefnið hafi vakið mikla athygli erlendis.

„Jarðfræði- og jarðhitavísindaheimurinn fylgist allur með framvindu þessa verkefnis, og við höfum fengið ótrúlega mikla umfjöllun út á þetta, jafnvel án þess að kalla nokkuð eftir því.“

Sjá má hvernig borholan teygir sig mun neðar en þær …
Sjá má hvernig borholan teygir sig mun neðar en þær sem fyrir eru. Graf/ISOR

Færri holur fyrir sömu orku

Nú tekur við næsta verkefni, að rannsaka holuna betur og sjá hvað hægt er að framleiða úr henni. Vonir standa til þess að djúpar borholur sem þessar séu umhverfisvænni en þær grynnri.

„Það er ljóst að með þessari tækni þarf að bora færri holur til að fá sömu orku,“ segir Ásgeir.

Talið er að úr hverri djúpborun geti fengist 30 til 50 megawött, en venjuleg hola gefur að jafnaði um 5 til 10 megawött.

„Í staðinn fyrir 30 holur til að anna raforkuþörf höfuðborgarsvæðisins, þá þyrfti kannski bara fimm svona.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert