Eigur Birnu gætu vísað á staðinn

Frá leitinni í dag.
Frá leitinni í dag. mbl.is/Eggert

Leitinni sem stóð yfir við Selvog í dag er að ljúka. Ekkert fannst sem hægt er að tengja við rannsóknina, að sögn Ásgeirs Þórs Ásgeirssonar yfirlögregluþjóns. Hann segir tilgang leitarinnar m.a. að reyna að komast að því með óyggjandi hætti hvar Birnu Brjánsdóttur var komið fyrir í sjónum.

Ásgeir segir um 60 manns hafa komið að leitinni í dag, frá lögreglu og Landsbjörg.

Hann segir enga aðra leit skipulagða eins og staðan er.

„Við áttum eftir að leita þetta svæði betur og við töldum þetta vera líklegan stað,“ segir Ásgeir en meðal þess sem var leitað voru eigur Birnu; sími og fatnaður.

„Og bara núna um helgina var sjávarstaðan góð, veðurspáin góð fyrir daginn og það er náttúrlega helgi sem auðveldar okkur aðgengi að björgunarsveitunum. Þannig að það voru svona margar ástæður til að fara út í dag. Og við erum búin að útiloka stórt svæði og endurleita sumt sem hefur ekki verið leitað síðan Birna fannst.“

En skiptir það sköpum fyrir rannsóknina að þessir hlutir finnist?

„Þessu verður Grímur [Grímsson yfirlögregluþjónn] að svara,“ segir Ásgeir. Við erum ekki bara að leita að þeim. Við erum líka að leita að mögulegum verksumerkjum um þessa hluti; það sem við höfum áhuga á er að getað teiknað þessa atburðarás ennþá betur en við höfum getað hingað til. Þetta er ekki bara að finna þessar eigur.“

Ásgeir segir lögregluna leitast við að byggja upp málið frá öllum hliðum en meðal þess sem menn myndu vilja gera væri að geta fullyrt með óyggjandi hætti hvar Birnu var komið fyrir í sjónum.

Spurður að því hvort leitin að eigum Birnu hafi þá snúist um það; hvort menn teldu símann og fatnaðinn myndu finnast þar sem hún var látin í sjóinn, svarar Ásgeir:

„Mögulega. En svo gætu þeir verið allt annars staðar. Það er engin vissa fyrir því að þar sem líkinu hafi verið komið fyrir í sjó hafi þessir munir verið settir á sama stað. Það eru engin vísindi þar á bak við.“

Leitað í flæðarmálinu skammt frá þeim stað þar sem Birna …
Leitað í flæðarmálinu skammt frá þeim stað þar sem Birna fannst. mbl.is/Eggert
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert