Nýtt skilti sett upp í Dyrhólaey

Skiltið í Dyrhólaey sem um ræðir.
Skiltið í Dyrhólaey sem um ræðir. mbl.is

Nýtt skilti hefur verið sett upp í Dyrhólaey þar sem varað er við aðsteðjandi hættu. Banaslys varð í Kirkjufjöru við Dyrhólaey fyrir tæpum mánuði. Verið var að ljúka við gerð skiltisins þegar slysið varð og hafði það því ekki verið sett upp.

EFLA verkfræðistofa hannaði skiltið að ósk Umhverfisstofnunar vegna hættu af völdum skriðufalla og brims við Dyrhólaey.

Áður hafði EFLA unnið tvö skilti sem voru sett upp í Reynisfjöru til að vara við hættunni þar.

Dyrhólaey.
Dyrhólaey. mbl.is/Jónas Erlendsson

Myndrænna og meira áberandi

Að sögn Írisar Guðnadóttur, byggingarverkfræðings hjá EFLU, hafði Umhverfisstofnun áður sett upp skilti í Dyrhólaey þar sem varað var við hættu. Það var aftur á móti ekki eins áberandi og myndrænt og nýja skiltið.

Hún segir að nýja skiltið í Dyrhólaey og þau sem sett voru upp í Reynisfjöru séu öðruvísi á litinn en til dæmis upplýsingaskilti Umhverfisstofnunar og hefðbundin skilti Vegagerðarinnar og sjáist mjög vel í svörtum sandi. Einnig eru þau myndræn þar sem hættan er útskýrð. Skiltið í Dyrhólaey er 170 sentimetrar á breidd og 60 sentimetrar á hæð. Annað skilti fyrir neðan er 25 sentimetrar á hæð.

mbl.is/Jónas Erlendsson

Ekki nauðsynlegt að stoppa

„Þú átt að meðtaka upplýsingarnar með því að labba fram hjá skiltunum. Það er ekki endilega ætlast til að þú stoppir en ef þú stoppar geturðu leitað þér frekari upplýsinga,“ segir Íris.

„Þarna er verið að brýna fyrir fólki hver hættan er,“ segir hún og nefnir að á skiltinu í Dyrhólaey séu nýjar skýringarmyndir sem lýsi staðbundinni hættu í eynni, auk þess sem blaðaúrklippur af raunverulegum atburðum séu á því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert