„Maður fær smá innsýn inn í landkynningu á Íslandi á þessum tíma,“ segir Magnús Karl Magnússon um myndband sem hann deildi á Facebook-síðu sinni í vikunni. „Þetta er merkileg saga og skemmtileg.“
Að sögn Magnúsar Karls hafði maður samband við hann sem hafði fundið myndir merktar Magnúsi Ólafssyni, langafa þess fyrrnefnda. Magnús Karl telur líklegt að Jón Ófeigsson hafi notað myndirnar til að kynna Ísland á erlendri grundu á árunum 1924-1925.
„Jón Ásgeirsson, barnabarn Jóns Ófeigssonar, hafði samband við mig en hann vissi af tengslum mínum við Magnús [langafa]. Hann hafði fundið kassa með gamaldags ljósmyndaskyggnum í geymslu frá afa sínum og þær voru merktar langafa,“ segir Magnús Karl.
Magnús Ólafsson lærði ljósmyndun í Danmörku um aldamótin 1900 og setti í kjölfarið upp ljósmyndaver í Reykjavík. „Hann var einn af þessum frumkvöðlum í ljósmyndun og fyrsti formaður ljósmyndarasambandsins. Sigfús Einarsson var á undan honum og síðan voru kannski nokkrir aðrir af kynslóð Magnúsar.“
Að sögn Magnúsar Karls var langafi hans hvað þekktastur fyrir ljósmyndir úr Reykjavík og var hann jafnvel kallaður „ljósmyndari Reykjavíkur“. Hann tók þó einnig myndir víðar og ferðaðist meðal annars með syni sínum, Ólafi Magnússyni ljósmyndara, um landið.
„Þeir tóku myndir á ferðalögunum og þessar myndir eru áreiðanlega með fyrstu landslagsmyndunum, þarna í upphafi aldarinnar.“
Jón Ófeigsson var þýskukennari við Menntaskólann í Reykjavík og mikill menntafrömuður. Eftir að Magnús Karl fékk myndirnar í hendurnar fór hann að kynna sér feril Jóns betur.
„Ég þekkti hann ekki af öðru en nafninu fyrr en ég fór að kynna mér þetta. Jón var bæði merkur fræðimaður og menntafrömuður og hann samdi fyrstu þýsk-íslensku orðabókina og mikið af kennslubókum. Á árunum 1924-1925 var hann eitt ár í Danmörku og Þýskalandi til að kynna sér menntamál í þessum löndum.“
Magnús Karl komst einnig að því að Jón hefði haldið fyrirlestra um Ísland á ferðum sínum í Danmörku og Þýskalandi.
„Það kom fram í viðtali við Vísi þarna 1925 að hann hafði haldið eina 20 fyrirlestra um Ísland á þessum tíma. Á boxinu sem barnabarn hans fann með þessum myndum var áritað heimilisfang í Kaupmannahöfn. […] Allar skyggnurnar voru númeraðar og ég setti þær í sömu röð í myndbandinu. Þá sér maður augljóslega að þarna er verið að segja einhverja sögu.
Kynningin byrjar með Íslandskorti og svo eru myndir frá Reykjavík og úr atvinnulífinu. Síðan er farið út á land, til Þingvalla og svona ferðast vítt og breitt um landið. Þannig að þetta hefur örugglega verið landkynningarsýning Jóns Ófeigssonar.“
Magnús Karl segist ekki geta fullyrt að allar myndirnar séu eftir langafa hans en hann telur þó líklegt að hann hafi tekið megnið af þeim. „Ívar Brynjólfsson, ljósmyndari hjá Þjóðminjasafninu, hafði samband við mig og sagði að alla vega ein myndin væri sennilega frá Sigfúsi Einarssyni þannig að það er hugsanlegt að það séu einhverjar myndir þarna sem Magnús fékk frá öðrum ljósmyndurum. En þær voru sem sagt allar unnar hjá stúdíói Magnúsar.“
Sjón er vissulega sögu ríkari þegar kemur að þessari merku landkynningu en myndband Magnúsar Karls má sjá hér að neðan.
„Þessar landslagsmyndir eru teknar milli 1910 og 1925 og þetta er á þessum tíma þegar áhugi fólks á náttúrunni er að vakna. Ferðafélagið er stofnað 1927 […] Þetta er merkilegur tími í menningarsögu Íslands.“