Bjarga forsetanum úr sjónum

Þyrla Landhelgisgæslunnar mun bjarga forseta Íslands upp úr Reykjavíkurhöfn í …
Þyrla Landhelgisgæslunnar mun bjarga forseta Íslands upp úr Reykjavíkurhöfn í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta er náttúrulega upplagt fyrir foreldrana að taka krakkana þarna niður eftir og sýna þeim þessi tæki og tól sem þar eru og ræða við fulltrúa þeirra sem eru á staðnum,“ segir Þórhallur Ólafsson, framkvæmdastjóri Neyðarlínunnar, í samtali við mbl.is. Árlegi 112-dagurinn fer fram í og við tónlistarhúsið Hörpu í dag en þar munu viðbragðsaðilar alls staðar af landinu standa fyrir dagskrá og verður forseta Íslands m.a. bjargað úr sjónum.

Dagskráin hefst klukkan 13.00 og er ekki af verri endanum. Viðbragðsaðilar sýna fjölbreyttan tækjakost sinn, m.a. sjúkra- og björgunarbíla, vélsleða, lögreglubíla, mótorhjól og snjóruðningstæki. Þá verða kafarar og sprengjudeildin á svæðinu og verður gestum og gangandi boðið um borð í varðskipið Þór svo fátt eitt sé nefnt. 

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra mun flytja erindi og veitt verða verðlaun fyrir Eldvarnargetraunina 2016 og skyndihjálparmaður Rauða krossins útnefndur. Einna mest eftirvænting ríkir fyrir dagskrárlið sem hefst klukkan 14.30 við Reykjavíkurhöfn, þar sem þyrla Landhelgisgæslunnar mun bjarga forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, upp úr sjónum. 

„Hann verður sóttur, alveg örugglega,“ segir Þórhallur hlæjandi og kveðst spenntur að sjá hvernig til muni takast að bjarga forsetanum upp úr höfninni. 112-dagurinn hefur verið haldinn frá árinu 2000 en þetta er í fyrsta sinn sem dagurinn fer fram á laugardegi og gefst því fleirum kostur á að taka þátt í hátíðardagskránni sem má kynna sér nánar hér.

Áhugasamir gestir á 112 deginum fyrir nokkrum árum skoða þyrlu …
Áhugasamir gestir á 112 deginum fyrir nokkrum árum skoða þyrlu Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert