Dæmi um að fólk fari aftur í skápinn

Helga segir að m.a. þurfi að huga að eldra hinsegin …
Helga segir að m.a. þurfi að huga að eldra hinsegin fólki og hinsegin hælisleitendum. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég held við höfum kannski aðeins orðið værukær; við erum svo vön að tala um okkur sem Ísland best í heimi,“ segir Helga Baldvinsdóttir Bjargardóttir, framkvæmdastýra samtakanna '78, í samtali við mbl.is. Í dag fer fram þjóðfundur hinsegin fólks sem ber yfirskriftina „Samtakamátturinn“ en meðal þess sem verður til umræðu á fundinum er sú staðreynd að Ísland er að dragast aftur úr í alþjóðlegum samanburði hvað varðar réttindi hinsegin fólks.

Árið 2013 var Ísland í 10. sæti samkvæmt Regnbogakorti ILGA-Europe og rétt á eftir Danmörku þegar kemur að réttindum hinsegin fólks. Nú hefur Ísland dregist aftur úr hinum Norðurlöndunum og er á svipuðum stað og Grikkland, í 14. sæti.

Þarf að bæta jafnréttislöggjöf

„Við fögnuðum náttúrlega rosa mikið hjónaböndum samkynhneigðra, það var mikill áfangi. En viðmiðin fyrir hvernig við tryggjum best réttindi hinsegin fólks eru alltaf að breytast og þarna erum við svolítið að dragast aftur úr,“ segir Helga, innt eftir því af hverju Ísland sé að dragast aftur úr.

Hún segir að margt þurfi að bæta varðandi réttindi intersex- og transfólks og síðast en ekki síst vanti almennari jafnréttislöggjöf.

„Það er kannski svona stærsta baráttumálið sem er eftir; við erum enn þá bara með kynjajafnréttislöggjöf sem bannar mismunun á grundvelli kynferðis,“ segir Helga og bætir við að enn þá vanti ákvæði í lög sem leggi bann við mismunun á grundvelli annarra þátta svo sem kynhneigðar, kynvitundar og kyneinkenna auk þess sem engin allsherjar stefnumótun sé til staðar í málefnum hinsegin fólks.

Íslensk hjúskaparlög heimila samkynhneigðum að ganga í hjónaband.
Íslensk hjúskaparlög heimila samkynhneigðum að ganga í hjónaband. hag / Haraldur Guðjónsson

 „Ég veit að það er verið að vinna í því í ráðuneytinu, það er búin að vera vinna sem að hefur tekið rosa langan tíma og þetta er held ég svona næsta skref,“ segir Helga.

Hún bindur vonir við að Þorsteinn Víglundsson, nýr félags- og jafnréttismálaráðherra, verði sá ráðherra sem útvíkki jafnréttishugtakið. Þorsteinn mun opna fundinn sem hefst klukkan 13.00 í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur og er öllum opinn.

Hinsegin-væn elliheimili til fyrirmyndar

Í aðdraganda fundarins var send út viðhorfskönnun um starfsemi félagsins og byggir viðfangsefni fundarins á niðurstöðum könnunarinnar. Að sögn Helgu kom þar í ljós að kallað er eftir almennum umræðum um hinsegin samfélagið og hvernig unnt sé að vinna gegn fordómum, umræðum um málefni hinsegin hælisleitenda og hinsegin eldra fólks. Þá er markmið fundarins er ekki síst að móta stefnu félagsins til lengri tíma.

„Það eru alveg dæmi um það að fólk fari aftur í skápinn því það er einhvern veginn ekki gert ráð fyrir hinsegin eldra fólki hvað varðar félagslíf eldra fólks og hvað varðar þjónustu á dvalarheimilum,“ segir Helga. Í því samhengi séu Danir til dæmis komnir með eins konar hinsegin-væn elliheimili og það sé nokkuð sem Íslendingar geta tekið sér til fyrirmyndar.

Hinsegin hælisleitendur í annarri stöðu

Hvað hinsegin hælisleitendur varðar segir Helga stundum virðast sem stjórnvöld kunni ekki að taka tillit til fleiri en einnar breytu í einu.

„Stjórnendur átta sig ekki á að hinsegin hælisleitendur eru í allt annarri stöðu heldur en aðrir hælisleitendur og það geta ekki gilt sömu reglur um hinsegin hælisleitendur sem að kannski hætta lífi sínu í hópi annarra hælisleitenda með að opinbera kynhneigð sína til dæmis,“ segir Helga.

Á fundinum verður sérstakt umræðuborð um hinsegin hælisleitendur og við lok fundarins mun ganga undirskriftalisti til stuðnings hælisleitendanum Amirs Shokrgoz­a sem vísað var frá Íslandi til Ítalíu.

Sem fyrr segir hefst þjóðfundurinn klukkan 13.00 í Tjarnarsal Ráðhússins og mun hann standa yfir til kl. 18.00. Hvetur Helga alla þá sem hafa áhuga til að mæta á fundinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert