Vill lög um ætlað samþykki líffæragjafa

Líffæragjöf getur bjargað mannslífum. Mynd úr safni.
Líffæragjöf getur bjargað mannslífum. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Torfason

Runólfur Pálsson, yfirlæknir nýrnalækninga hjá Landspítalanum, telur tímabært að íslensku löggjöfinni um líffæragjafir verði breytt þannig að hún feli í sér ætlað samþykki. Hann segir frumvarp sem lagt hefur verið fram um málið vera mikilvægt.

Skiptar skoðanir hafa verið uppi um líffæragjafir og ætlað samþykki fyrir þeim. Þar er gert ráð fyrir því að allir séu gjafar en samt er oftast leitað til fjölskyldunnar áður en líffæri eru tekin úr einstaklingum.

„Það sem hefur verið deiluefni í þessu um árabil er að það sé verið að svipta fólk sjálfsákvörðunarrétti, að þetta sé ekki lengur gjöf,“ segir Runólfur en bendir á að það sé í samfélagsþágu að lögin líti þannig á að allir séu líffæragjafar. Það auðveldi allt í tengslum við málaflokkinn.

Runólfur Pálsson.
Runólfur Pálsson. mbl.is/Árni Sæberg

Aukin gjafatíðni 

Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, vill breyta löggjöf þannig að gengið sé út frá því að fólk sé reiðubúið að gefa líffæri sín að sér látnu. Frumvarp þess efnis var lagt fram árið 2013 en hlaut ekki brautargengi.

Hér á landi hefur gjafatíðnin aukist síðustu tvö árin. Í fyrra voru líffæragjafar níu talsins á Íslandi, að sögn Runólfs, en voru 12 árið 2015.

Hann segir að nokkuð vel hafi tekist að mæta spurn eftir líffærum hér á landi, meðal annars vegna þess að tíðni sjúkdóma sem valda líffærabilun hefur verið áberandi lág í samanburði við aðrar þjóðir.

„Þó að gjafatíðnin hafi verið lág hérna frá látnum hefur það ekki komið að sök. Nýrun eru þau líffæri sem oftast eru grædd í fólk og þá spilar það stóran þátt þar að við höfum verið með lifandi gjafa. Þeir hafa verið 70% af öllum nýrnagjöfum síðustu tvo áratugi. Það hjálpar okkur mjög,“ segir Runólfur í samtali við mbl.is en nýlega skrifaði hann um líffæragjöf á vef Læknablaðsins

Landspítalinn Fossvogi.
Landspítalinn Fossvogi. mbl.is/Eggert

Vilja horfa til framtíðar

Hann nefnir að spurnin hér á landi eftir líffærum hafi aftur á móti aukist og ígræðslum fjölgað. „Því skiptir það okkur miklu máli eins og alla aðra að sem allra flestir gefi sem komast í þessa aðstöðu. Við viljum horfa til framtíðar. Við viljum ekki lenda í einhverjum vandræðum og þurfa þá að fara að hugsa fyrir hlutunum. Í svona smáu samfélagi eins og okkar geta miklar sveiflur verið á milli ára.“

Skipulag, þjálfun og þekking almennings

Að mati Runólfs er mikilvægt að gott skipulag sé hjá heilbrigðisstofnunum þannig að menn missi ekki af líffæragjöfum. Hann nefnir einnig mikilvægi þjálfunar starfsfólks sem hefur samskipti við syrgjendur og að almenningur hafi þekkingu á málefninu.

Hann bætir við að ætlað samþykki vegna líffæragjafa sé við lýði víðast á Vesturlöndum og þar sé tíðni líffæragjafa áberandi hærri en í hinum löndunum.

Lönd á borð við Frakkland, Spán og Noreg eru með ætlað samþykki en á meðal þjóða sem hafa ekki fest það í lög eru Þýskaland og Bretland.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert