Vanáætlað í fjárlögum

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra segir að verið sé að tryggja viðbótarfjármagn …
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra segir að verið sé að tryggja viðbótarfjármagn fyrir kærunefnd útlendingamála. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir að verið sé að tryggja viðbótarfjármagn fyrir kærunefnd útlendingamála svo starfsemi nefndarinnar dragist ekki saman.

Í tilkynningu frá kærunefnd útlendingamála í gær kom fram að 13 af 19 starfsmönnum nefndarinnar muni að óbreyttu láta af störfum í lok næsta mánaðar. Var ástæðan sögð skertar fjárheimildir nefndarinnar en kærunefnd telur að þörf sé á 140 milljóna króna viðbótarfjármagni, umfram upphæðina sem fjárlög 2017 gera ráð fyrir.

Í samtali við mbl.is sagði Sigríður liggja fyrir að endurskoða þurfi fjárheimildir kærunefndar fyrir árið og að það verði gert á næstu dögum.

„Öll ráðuneytin eru í dag að vinna í sínum undirbúningi fyrir fjárheimildir næsta árs […] og að minnsta kosti í þessu tilviki þá liggur fyrir að við þurfum að skoða fjárheimildir [þessa árs] fyrir bæði Útlendingastofnun og kærunefndina og þennan svokallaða hælislið, það er svona kostnaður er varðar húsnæði og umönnun.“

„Allan þennan málaflokk þurfum við að skoða hérna í [dómsmálaráðuneytinu] vegna þess að það liggur alveg fyrir að það var vanáætlað á þessa þætti í fjárlögum. Það helgast kannski að nokkru leyti af því að menn eru svolítið að renna blint í sjóinn með allan þennan málaflokk, það er að segja hversu umfangsmikill hann er á hverju ári, það eru rosalegar sveiflur. Þessa dagana erum við að skoða þetta í samvinnu við fjármálaráðuneytið.“

Vonbetri en áður

Hjörtur Bragi Sverrisson, formaður kærunefndar útlendingamála, sagði í samtali við mbl.is að hann hefði farið á fund ráðherra í dag og væri nú vonbetri um að niðurstaða fáist í málið og fjármagn verði tryggt áður en starfsmenn nefndarinnar láta af störfum í lok mars.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert