„Ekki einfalt að fá fagfólk“

Brekkubyggðin á Blönduósi með Spákonufellið í baksýn.
Brekkubyggðin á Blönduósi með Spákonufellið í baksýn. mbl.is/Jón Sigurðsson

„Við höfum náð góðum árangri og bætt ýmsa þætti í starfseminni og unnið eftir leiðbeiningum frá sérfræðiteyminu. En í hreinskilni sagt þurfum við enn að beita ólögmætri nauðung á sambýlinu,” segir Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri málefna fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra, um starfshætti á sambýlinu á Blönduósi.

Rúv greindi frá því í gær að ólögmætri nauðung og þvingun væri beitt á sambýlinu á Blönduósi. Þetta er úrskurður sérfræðiteymis innan velferðarráðuneytisins frá því í fyrra um sambýlið á Blönduósi. Í fréttinni kom einnig fram að ástandið á sambýlinu væri óviðunandi og meðal annars rætt við fyrrverandi starfsmann sambýlisins og lögráðamann eins íbúa.

Gréta segir að markvisst hafi verið unnið að úrbótum á þjónustunni á  sambýlinu en þrátt fyrir það á enn eftir að ráða bót á ýmsu. Á sambýlinu búa fjórir karlmenn. Þeir eru hver með með sitt herbergi sem er 19 fermetrar að stærð en deila stofu, eldhúsi og baðherbergi. Til skoðunar er að ráða bót á húsnæðismálum, að sögn Grétu. Ekkert annað húsnæði er í sigtinu en verið er að skoða hvort byggja eigi við núverandi húsnæði. Eigendur hússins er Félags- og skólaþjónusta bs. í Austur-Húnavatnssýslu sem er rekið af sveitarfélögum í Austur-Húnavatnssýslu. Verið er að fara yfir mögulegar breytingar á húsnæðinu með Skagafirði. Ekki liggur fyrir hvenær niðurstaða liggur fyrir.


Bæta þarf fræðslu starfsfólks

Gréta bendir á að fræðsla til starfsfólks sambýlisins hafi verið aukin. Í úrskurði sérfræðiteymisins kom meðal annars fram að bæta þyrfti fræðslu og menntun starfsfólks á sambýlinu.  

Á sambýlinu á Blönduósi starfar einn þroskaþjálfi og sá er forstöðumaður Sambýlisins. Enginn annar er með faglega menntun en einhverjir hafa lokið félagsliðanámi og þá eru nokkrir starfsmenn í námi, að sögn Grétu.  

„Það hefur  ekki verið einfalt að fá fagfólk til að starfa á sambýlinu á Blönduósi. Við tökum fagnandi á móti öllum þroskaþjálfum,“ segir Gréta. Aðspurð hvort sveitarfélagið geri nógu mikið til að laða til sín fólk til starfa segir hún að sveitarfélagið sé sífellt að rýna í þá þætti og skoða. „Þetta er vandi sem ríkið átt við að etja meðan það annaðist málaflokkinn og sveitarfélög víða hafa ekki fundið lausn á eftir yfirfærslun hans árið 2011. Laða þarf að fagmenntað fólk í auknum mæli. Það hefur tekist í skólum og leikskólum á landsbyggðinni en ekki í sama mæli í þessum geira.”

Mikið vantar upp á mennt­un þeirra sem starfa á heim­il­um fyr­ir fatlaða og laun­in eru skamm­ar­lega lág. Þetta er meðal þess sem seg­ir í álykt­un sem Þroskaþjálf­a­fé­lag Íslands hef­ur sent frá sér í til­efni út­gáfu skýrslu vistheim­ila­nefnd­ar um vist­un barna á Kópa­vogs­hæli 1952 -1993.

Þroskaþjálfafélagið segir jafnframt að „sum sveit­ar­fé­lög hafi ekki metnað að ráða hæft, fag­menntað fólk. Þá veiti þau þá þjón­ustu sem hægt er að kom­ast upp með, með sem minnst­um til­kostnaði þar sem hagræðing­ar­sjón­ar­mið eru höfð að leiðarljósi.“ Þessu er Gréta ekki sammála og vísar til þess að erfitt sé að fá fólk til starfa og segir jafnframt að sveitarfélagið reyni til hlítar að uppfylla þær skyldur samkvæmt lögum. Hún bendir á að Sveitarfélagið hafi frekar bætt í þjónustu heldur en hitt þrátt fyrir að framlög Jöfnunarsjóðs dugi ekki til.  

Sauðárkrókur í Skagafirði.
Sauðárkrókur í Skagafirði. mbl.is/Sigurður Bogi

Hafa þurft að greiða með málaflokknum frá 2013 

Sveitarfélagið Skagafjörður tók við málefnum fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra árið 2016. Alls eru sjö þjónustuíbúðir og sambýli fyrir fatlaða á Norðurlandi vestra þar sem 25 manns búa. Á fimm af þessum stöðum starfa þroskaþjálfar, í einu tilviki er um NPA samning að ræða þar sem notandi stjórnar sinni eigin aðstoð. Sums staðar eru einnig starfandi sjúkra- og/eða félagsliðar.

Gréta bendir á að þrátt fyrir að ítrekaðar beiðnir sveitarfélagsins til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um aukið fjármagn í málaflokkinn hefur það ekki borið mikinn árangur. Hún segir Norðurland vestra þurfi tvímælalaust meira fé miðað við umfang málaflokksins. Frá árinu 2013 og til og með 2016 hafa sveitarfélögin verið að greiða 109 milljónir króna með málaflokknum. Gert er ráð fyrir að á árinu 2017 vanti um 75 milljónir króna miðað við óbreytta þjónustu.

Hún bendi einnig á að árið 2013 hafi verið send inn beiðni af þjónustusvæðinu til velferðarráðuneytisins um samstarf og úttekt á þjónustu sem fötluðum væri veitt. „Við höfum lítil svör fengið. Við viljum fá rýni á okkar störf og teljum það mikilvægt fyrir starfið okkar.“ Aðspurð hvort hún teldi það ásættanlegt vísaði hún til velferðaráðuneytisins.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert