Forgangsraða þurfi í málaflokkinn

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra.
Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra. mbl.is/Eggert

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að James Matt­is, varn­ar­málaráðherra Banda­ríkj­anna, hafi verið mjög skýr þegar hann ræddi við kollega sína í NATO um að rík­is­stjórn Don­alds Trumps myndi „stilla skuld­bind­ing­um sín­um í hóf“ gagn­vart banda­lag­inu, nema hin rík­in leggi meira fjár­magn af mörk­um.

„Hann benti á það að þessi sjónarmið hefðu komið fram í áratug; að þolinmæði skattgreiðenda væri ekki endalaus þegar kæmi að því að uppfylla þau skilyrði sem aðildarríkin skuldbundu sig til að gera, sem kemur að framlögum til varnarmála,“ segir Guðlaugur Þór.

Skilaboð Mattis til kollega hans koma í kjölfar ára­langra ákalla frá Washingt­on um að önn­ur ríki Atlants­hafs­banda­lags­ins eyði að minnsta kosti tveim­ur pró­sent­um þjóðarfram­leiðslu sinn­ar í varn­ar­mál. Aðeins nokk­ur þeirra hafa gert það í raun, þrátt fyr­ir að þau hafi öll skrifað und­ir sátt­mála þess efn­is árið 2014.

Guðlaugur segir að Mattis hafi ekki verið sá eini sem talaði á þessum nótum. „Það sama kom fram hjá, held ég að megi fullyrða, öllum aðildarþjóðunum og þetta er í anda þess sem Stoltenberg hefur verið að ræða ásamt forystumönnum NATO í mjög langan tíma.

Guðlaugur bendir á að alltaf hafi legið fyrir að Ísland er einn af stofnaðilum NATO og herlaus þjóð. „Okkar framlag hefur verið með öðrum hætti, í gegnum borgaralega þjónustu. Við höfum gert það og munum halda því áfram og það framlag er vel metið. Við höfum verið að efla það og gerðum það í þessum fjárlögum, þennan þátt málsins og það er augljóst að við þurfum að forgangsraða í þennan málaflokk.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert