Gott landsmót samvinnuverkefni

Áskell Heiðar Ásgeirsson framkvæmdastjóri Landsmóts
Áskell Heiðar Ásgeirsson framkvæmdastjóri Landsmóts mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mig langar að ná fram þessum gamla góða anda sem fylgir landsmótum hestamanna þar sem fólk kemur saman bæði til að horfa á hross og til að hittast,“ segir Áskell Heiðar Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Landsmóts hestamanna í Reykjavík 2018 sem fer fram 1.-8. júlí. Heiðar er nýtekinn við starfinu og skipulagning mótsins er að hefjast. Hann er enginn nýgræðingur þegar kemur að því að skipuleggja viðburði, en hann var einnig framkvæmdastjóri síðasta landsmóts, sem fram fór á Hólum í Hjaltadal síðasta sumar.

Ungmenni í Fáki létu ljós sitt skína á Vetrarhátíð.
Ungmenni í Fáki létu ljós sitt skína á Vetrarhátíð. Ragnar Th Sigurdsson / ARCTIC IMAGES

Tímamót í rekstri landsmóta

Mótið í Reykjavík mun marka ákveðin tímamót í rekstri landsmóta, en þetta verður í fyrsta sinn sem Landssamband hestamannafélaga mun ekki sjá um mótið heldur mun hestamannafélagið Fákur sjá alfarið um mótshaldið. Fákur hefur stofnað sérstakt félag sem nefnist LM 2018 ehf. og skipað sérstaka stjórn sem stýrir skipulagningu mótsins. Á meðfylgjandi mynd má sjá stjórnarmennina.

Fákur nýtur dyggs stuðnings Reykjavíkurborgar líkt og á síðustu landsmótum sem haldin hafa verið í Reykjavík. Höfuðborgarstofa tekur einnig virkan þátt í undirbúningnum. Kynning á Landsmótinu 2018 er þegar hafin og meðal annars tóku félagsmenn Fáks þátt í opnunarhátíð vetrarhátíðar í Reykjavík í byrjun febrúar þegar þeir riðu niður Skólavörðuholtið á hestum.

Stjórn LM2018 og framkvæmdastjóri.
Stjórn LM2018 og framkvæmdastjóri.

Búist er við talsverðum fjölda gesta á landsmótið og eru erlendir gestir um 20% mótsgesta. Þegar er búið er að taka frá um 300 hótelherbergi sem eru ætluð fyrir þá og skipulagning hafin á sérstökum pakkaferðum á mótið. „Við ætlum að þjónusta þetta fólk vel,“ segir Heiðar og bendir á að miklu muni um samvinnu við Reykjavíkurborg, þar sem meðal annars verður hægt að tvinna saman aðra afþreyingu eins og t.d. heimsóknir á söfn, sundlaugar og strætóferðir.

Síðast var haldið landsmót í Reykjavík árið 2012 og því verður nú hægt að byggja á góðum grunni að sögn Heiðars. Hann bendir á að í grunninn snúist öll landsmót um það sama, eins og allir aðrir viðburðir, að láta öllum gestum líða vel hvort sem það eru keppendur, starfsmenn eða ferfætlingarnir.

Stórt hópverkefni

„Þetta er stórt hópverkefni þar sem allir leggjast á eitt að skapa stórt og flott mót. Ég hlakka til að virkja þennan góða anda og fá fólk til liðs við okkur,“ segir Heiðar. Hann segir helsta verkefni sitt vera að stilla saman hópinn og finna sérfróða einstaklinga um hina ýmsu þætti sem snúa að mótshaldi. Hann tekur fram að margir þeirra komi úr hestamannafélögunum, en þar býr mikill mannauður. „Það skemmtilegasta við starfið er að kynnast öllu þessu góða fólki,“ segir Heiðar.

Þrátt fyrir að landsmótið verði haldið í höfuðborginni getur fólk nýtt sér tjaldsvæðið í Víðidalnum. Heiðar tekur fram að hvert mótssvæði hafi sína kosti og galla. „Það sem við þurfum að horfa sérstaklega til er að mótið er á höfuðborgarsvæðinu og fólk á auðvelt með að fara af svæðinu. Við þurfum því að huga að því að skapa rétta stemningu til að halda utan um hópinn.“

Vill ánægða gesti

Spurður um væntanlegan fjölda gesta vill hann ekki nefna neina tölu. Hann bendir á að sá fasti kjarni sem fari alltaf á landsmótin sama hvar þau eru haldin sé í kringum sex til átta þúsund manns. Við þennan fjölda bætist hinir sem kjósi að fara á landsmót frekar en aðra skemmtun því nægt sé framboðið af viðburðum. „Ég vil frekar senda frá mér glaða níu þúsund en hálfóánægða 12 þúsund manns,“ segir hann en tekur þó fram að alltaf þurfi að selja ákveðið marga miða til að mótið standi undir sér. Sú hafi ekki verið raunin á síðasta landsmóti á Hólum og því þurfi að ná inn meiri tekjum í gegnum miðasölu. Í mars næstkomandi hefst forsala aðgöngumiða á mótið, en aldrei hafa selst jafn margir miðar í forsölu eins og fyrir það síðasta.

Landsmót í Reykjavík 2018 verður það 23. í röðinni, en það hefur verið haldið tvisvar áður í Reykjavík frá því að það var fyrst haldið á Þingvöllum árið 1950.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert