Gefur 300 þúsund á mánuði

„Ég bað ekki um þessa kaup­hækk­un. Ég vissi ekki af …
„Ég bað ekki um þessa kaup­hækk­un. Ég vissi ekki af þess­ari kaup­hækk­un. Ég þarf ekki þessa kaup­hækk­un.“ mbl.is/Árni Sæberg

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hefur gefið 300 þúsund krónur af launum sínum til góðgerðarmála undanfarna fjóra mánuði, eða frá því í nóvember þegar hann tilkynnti á Bessastöðum að hann myndi ekki þiggja um hálfrar milljónar króna launahækkun sem kjararáð hafði úrskurðað honum.

Þetta segir Guðni í samtali við fréttastofu Ríkisútvarpsins.

Ákvörðun kjararáðs gagnrýnd víða

Úrskurður kjararáðs, um að hækka laun alþingismanna, ráðherra og forseta, hefur sætt mikilli gagnrýni. Bjarni Benediktsson, þáverandi fjármálaráðherra, sagðist tilbúinn að endurskoða hlutverk ráðsins.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, sendi þá öllum þingmönnum bréf þar sem hann skoraði á þá að grípa inn í úrskurð kjararáðs. Öryrkjabandalag Íslands harmaði ákvörðunina.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði kjararáð staðráðið í að brjóta á bak aftur sameiginlega launastefnu sem aðilar vinnumarkaðarins hefðu sæst á, og stjórn Félags grunnskólakennara mótmælti úrskurðinum harðlega, svo nokkur dæmi séu nefnd.

Guðni tók við embætti forseta Íslands 1. ágúst.
Guðni tók við embætti forseta Íslands 1. ágúst. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

„Ég bað ekki um þessa kauphækkun“

Guðni sagði þá á Bessastöðum, að loknum umboðsveitingarfundi með Bjarna Benediktssyni, spurður út í ákvörðun kjararáðs: 

„Ég bað ekki um þessa kaup­hækk­un. Ég vissi ekki af þess­ari kaup­hækk­un. Ég þarf ekki þessa kaup­hækk­un."

Sagði hann þingmenn hafa lýst andúð sinni á ákvörðun ráðsins og að hann vænti þess að þingið vindi ofan af ákvörðuninni. Það hefur þó ekki verið gert.

„Ákveði þingið að þess­ari ákvörðun verði hnekkt með ein­hverj­um hætti leyfi ég mér að ít­reka að ég yrði full­kom­lega sátt­ur við það. Þangað til sé ég til þess að þessi hækk­un renni ekki í minn vasa.“

Bjóst við að úrskurðinum yrði breytt

Í samtali við fréttastofu í dag sagði hann að þegar skattar hefðu verið greiddir af kauphækkuninni stæðu eftir kr. 260.401, í mánuði hverjum. Frá því í nóvember hefði hann því greitt mánaðarlega 300 þúsund krónur til góðgerðamála. Vildi hann þó ekki opinbera hvert peningarnir hafi runnið. 

Þá sagðist hann hafa búist við því að úrskurði kjararáðs yrði breytt á einhvern hátt.

„Staðan er enn þannig frá mínum bæjardyrum séð að eins og sakir standa læt ég þetta hlutfall launa minna renna til góðgerðamála.“

Frétt RÚV

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert