Kalt að búa í áætlunum

mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Hjálmar Sveinsson, borgarfulltrúi og formaður umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, segir að Reykjavíkurborg sé að reyna að bjóða upp á sem mesta fjölbreytni í húsnæðismálum í borginni. Verið sé að byggja íbúðir víða, meðal annars stúdentaíbúðir. Þetta kom fram í máli hans í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni. Rætt var um hátt fasteignaverð og erfiða stöðu ungs fólks sem er að reyna að flytja úr foreldrahúsum.

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn, bendir á að það sé lykilatriði í að bregðast við húsnæðisvandanum að bjóða fram fleiri lóðir. Eðlilega vilji ungt fólk búa í miðborginni en það hafi einfaldlega ekki efni á því. Eitt sé að vilja annað er að geta. 

Að sögn Halldórs verður að bæta lóðaframboð í Úlfarsárdal til þess að bæta úr þeim mikla skorti sem sé á húsnæði á höfuðborgarsvæðinu. Sjálfstæðismenn hafi stutt þéttingaráform borgaryfirvalda en það sé bara ekki nóg. Það vanti fjögur þúsund íbúðir í Reykjavík og hann efist um að fólk sem á börn sem ekki hafa efni á að flytjast að heiman séu ánægð að heyra hver staðan er í Reykjavík þegar kemur að uppbyggingu.

Allt of lítið framboð segir Kristján Kristjánsson, þáttastjórnandi Sprengisands, og beindi orðum sínum til Hjálmars. Að sögn Hjálmars liggja fyrir samþykkt svæði fyrir 5 þúsund íbúðir á deiliskipulagi í Reykjavík. Þar af séu um 1500 í byggingu. Hann segir að margar þeirra henti ungu fólki.

Halldór segir að verðið sé enn svo hátt þar sem ekki sé nóg að gerð og segir að það sé ekki nóg að bjóða upp á áætlanir. Það sé ansi kalt að gista í áætlunum. Hann ítrekaði orð sín um að auka þurfi lóðaframboð í Reykjavík, það er í Úlfarsárdalnum.

Hjálmar segir mikilvægt að borgaryfirvöld vandi sig og fari ekki of hratt. Sagan sýni að það geti farið illa samanborið við það sem gerðist fyrir hrun. Hann segir að bæði Kópavogur og Reykjavík fylgi þeirri stefnu og eins séu önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu að gæta vel að hvar uppbyggingin fari fram - nálægt samgönguæðum í stað háhýsa í útjaðrinum.

Hjálmar telur að það verði veitt byggingarleyfi fyrir 1300 íbúðir í ár og svipað á næstu árum. Hann segir að það sé hátt í sögulegu samhengi. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert