Lagði íbúð í rúst

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu handtók tvo menn vegna kvartana sem bárust um hávaða í fjölbýlishúsum í nótt. Í öðru tilvikinu hafði maðurinn lagt leiguíbúð, sem hann var gestkomandi í, gjörsamlega í rúst. Hinn harðneitaði að lækka hávaðann og hrækti á lögreglumenn sem reyndu að ræða við hann.

Í miðborginni voru þrjár líkamsárásir tilkynntar til lögreglu í nótt. Menn sem eru grunaðir um tvær af árásunum voru handteknir á vettvangi og eru vistaðir í fangageymslu.  Engar frekari upplýsingar eru um meiðsli, að sögn lögreglu, og líkt og undanfarnar vikur fá fjölmiðlar engar upplýsingar um líðan fólks, sem annaðhvort verður fyrir ofbeldi eða lendir í slysum, frá Landspítalanum. Því liggur meðal annars ekki fyrir hvort einhver hafi þurft að leggjast inn á sjúkrahús eftir líkamsárásirnar. Eins er ekki vitað um líðan manns sem var fluttur á Landspítalann síðdegis í gær eftir alvarlegt vinnuslys á Keflavíkurflugvelli.

Fjórir voru handteknir fyrir ölvun og óspektir á höfuðborgarsvæðinu í nótt og eru þeir vistaðir í fangageymslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert