Vonandi verður samningurinn samþykktur

Teitur Björn Einarsson fremst á mynd.
Teitur Björn Einarsson fremst á mynd. mbl.is/Eggert

Teitur Björn Einarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að það væri mjög gleðilegt að skrifað hefði verið undir samning í kjaradeilu sjómanna. Að vísu þyrfti að sjá til hvort sjómenn samþykki samninga en atkvæðagreiðslu um þá lýkur í dag.

Þetta kom fram í Silfrinu á RÚV í morgun. „Við þurfum að sjá hvort þeir verði samþykktir,“ sagði Teitur og benti á að áður hefðu tveir samningar verið felldir í atkvæðagreiðslu. 

Teitur sagði að verkfallið hefði staðið of lengi en það hefur verið í á tíundu viku. „Ef þeir samþykkja ekki samninginn kemur upp ný staða. Ef þeir (deiluaðilar) gefast upp og sáttasemjari segir þetta vonlaust verða stjórnvöld að skoða hagsmuni þjóðarinnar í heild og þá koma lög að sjálfsögðu til greina,“ bætti Teitur við.

Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, sagði einnig að það væri ánægjulegt að það hefði tekist að semja án aðkomu ríkis. Hann sagðist ekki vera viss um hvort lagasetning kæmi til greina ef samningurinn verður ekki samþykktur.

Ef deilan snýst bara um kröfu á þriðja aðila þá er það strangt til tekið ólöglegt,“ sagði Pawel.

Við erum búin að horfa upp á síðustu ríkisstjórn setja lög á verkföll og ég er mjög ánægð að það er komin ákveðin lausn og vonum að samningurinn verði samþykktur,“ sagði Ásta Guðrún Helgadóttir, þingmaður Pírata. „Það þarf að senda skýr skilaboð um að samningsaðilar geta ekki beðið eftir aðkomu ríkisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert