Vel skipulögð innbrot

mbl.is

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu bárust 694 tilkynningar um hegningarlagabrot í janúar síðastliðnum, sem gerir um 22 tilkynningar á dag.

Eru þetta aðeins fleiri tilkynningar en í desember 2016 en nálægt meðaltali fyrir síðustu sex og tólf mánuði þar á undan, að því er fram kemur í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag.

Innbrotum og þjófnuðum fjölgaði á milli mánaða, sem og ofbeldisbrotum, ofbeldi gagnvart lögreglumanni, meiriháttar skemmdarverkum og meira bar á akstri undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hins vegar fækkaði kynferðisbrotum á milli mánaða og voru þau 40% færri samanborið við meðalfjölda í janúar á árunum 2014 til 2016. Sömuleiðis fækkaði tilkynningum um heimilisofbeldi.

Í skýrslu lögreglustjóra yfir afbrotatölfræði í janúar 2017 er vakin sérstök athygli á því að meiriháttar eignaspjöllum og innbrotum á heimili hafi hlutfallslega fjölgað mest.Alls bárust 123 tilkynningar um eignaspjöll, borið saman við 98 í desember sl. Eru þetta fleiri tilkynningar en að jafnaði hafa borist lögreglu síðustu sex mánuði. Enn meiri fjölgun varð á meiriháttar eignaspjöllum, sem fóru úr einni tilkynningu í desember í átta í janúar.

Í janúar sl. bárust 92 tilkynningar um innbrot, sem er 37% fjölgun á milli mánaða. Er þetta meiri tíðni innbrota en meðaltal síðustu sex og tólf mánaða segir til um. Sé litið enn lengra aftur, eða seinustu þriggja ára í janúar, þá er aukningin rúm 30%.

Lögreglan fékk til sín 300 tilkynningar um þjófnaði í janúar en voru 262 í desember. Mest fjölgaði þjófnuðum í innbrotum en fækkun varð í flokki farsíma og reiðhjóla.

Margeir Sveinsson aðstoðaryfirlögregluþjónn segir flest þessara innbrotamála sem komu upp í janúar og desember vera óupplýst. Fjölgun innbrota að þessu sinni sé aðallega bundin við einbýlishús í Mosfellsbæ, Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði. Margeir segir allt benda til að um skipulagða glæpastarfsemi sé að ræða. Ummerki á vettvangi sýni í flestum tilvikum að „fagmenn“ hafi verið á ferð og þá jafnvel sömu aðilarnir. Leikur grunur á að erlend glæpagengi skipuleggi og framkvæmi innbrotin og þýfið sé síðan flutt úr landi. Margeir segir þennan þátt m.a. til rannsóknar, enda sé lögreglan í samvinnu við starfsbræður sína í Skandinavíu þar sem farandbrotahópar séu þekkt vandamál.

Oftast hefur verðmætum skartgripum verið stolið úr svefnherbergjum fólks, þar séu yfirleitt ekki hreyfiskynjarar eða önnur öryggiskerfi. Er þá ekki hreyft við sjónvarpstækjum eða öðrum raftækjum á heimilunum.

Láti vita um mannaferðir

Lögreglan bendir á mikilvægi þess að fólk láti vita um grunsamlegar mannaferðir og að það skrifi líka hjá sér, t.d. bílnúmer eða jafnvel lýsingar á fólki, ef eitthvað óvenjulegt á sér stað í nánasta umhverfi þess. Betra sé að hringja einu sinni of oft í lögregluna með upplýsingar af þessu tagi en einu sinni of sjaldan. Lögreglan minnir einnig á mikilvægi þess að fólk gangi tryggilega frá heimilum sínum þegar það fer að heiman og tilvalið sé að tilkynna nágrönnum um slíkt. Nágrannavarsla geti skipt sköpum þegar kemur að því að upplýsa innbrot eða koma í veg fyrir þau. Sérstaklega er minnt á að útiljós séu kveikt þar sem þau eru til staðar, hvort sem um ræðir baka til við hús eða að framanverðu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert