Auka þjónustu við fötluð ungmenni

Bæði velferðar- og borgarráð Reykjavíkurborgar hafa samþykkt tilraunaverkefnið.
Bæði velferðar- og borgarráð Reykjavíkurborgar hafa samþykkt tilraunaverkefnið. mbl.is/Sverrir Vilhelmsson

Reykjavíkurborg hefur nú farið af stað með tilraunaverkefni sem ætlað er að létta álagi af fjölskyldum fatlaðra ungmenna og auðvelda ungmennunum að flytja að heiman. Ungmennum sem eru í umfangsmikilli þjónustuþörf og búa í foreldrahúsum gefst þar kostur á að fá sólarhringsþjónustu á heimili sitt.

Verkefnið kallast „Sveigjanleiki í þjónustu: „Frá barni til fullorðins““ og var samþykkt af bæði velferðar- og borgarráði í upphafi febrúarmánaðar. Sigurbjörg Fjölnisdóttir, deildarstjóri stuðningsþjónustu á skrifstofu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, segir verkefnið lið í aðgerðaáætlun sem byggir á stefnu Reykjavíkurborgar í þjónustu við fatlað fólk á heimilum sínum.

„Þetta er tímabundið þjónustutilboð sem við erum að fara af stað með fyrir börn og ungmenni sem eru í umfangsmikilli þjónustuþörf,“ segir Sigurbjörg en þar sem um tilraunaverkefni er að ræða gæti því miður svo farið að ekki allir sem sækja um fái að taka þátt.

Fái þjónustu allan sólarhringinn

Sigurbjörg er deildarstjóri stuðningsþjónustu á skrifstofu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar.
Sigurbjörg er deildarstjóri stuðningsþjónustu á skrifstofu velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Mynd/Sigurbjörg Fjölnisdóttir

„Hugsunin er svipuð og með beingreiðslusamningum eða NPA-samningum að því leyti að notandinn eða foreldrar hans eða forráðamenn ráða þá aðstoðarfólk inn á heimilið og sjá um umsýslu þess,“ segir Sigurbjörg. „Þau geta þá verið með þjónustu allan sólarhringinn heima hjá sér.“

Umsækjendur þurfa að uppfylla nokkur skilyrði en þjónustan er til að mynda ætluð fyrir börn og ungmenni á aldrinum 17-22 ára. Þá skulu umsækjendur eiga lögheimili í Reykjavík og vera búsettir í foreldrahúsum.

„Þetta er svolítið brú á milli þess að vera í foreldrahúsum og flytja svo að heiman því þetta er auðvitað stórt stökk. Þegar þú ert kominn með þjónustu inn á heimilið þá er þetta aðlögun fyrir alla, bæði fyrir þátttakandann að vera með starfsfólkið með sér og fyrir fjölskylduna að barnið eða ungmennið sé með starfsmann og jafnvel að gera sína hluti sér, eins og maður gerir þegar maður er orðinn ungmenni – maður nennir ekkert alltaf að hanga með mömmu og pabba.“

Aðrar þarfir

Spurð um hvort þörf sé á frekari úrræðum fyrir fötluð ungmenni segir Sigurbjörg að eins og staðan sé í dag vanti mögulega að brúa bilið milli þeirrar þjónustu sem býðst börnum og svo fullorðnum.

„Þetta er pínu flókið þegar þú ert að flytjast úr því að vera barn og í að vera fullorðinn. Þjónustan skerðist ekki þegar viðkomandi verður 18 ára en það koma aðrar þarfir. Aðalþörfin sem kemur er kannski að þegar þú verður fullorðinn viltu fara að búa á eigin heimili og lifa sjálfstætt og þá er kannski ekki margt í boði sem brúar þetta bil. […] Við erum að reyna að skoða þennan hóp til að koma til móts við hann og sjá hvernig er hægt að mæta þessum þörfum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert