Gagnrýnir einhæfa uppbyggingu

Bjarni spyr hvort áætlanir um þétta borgarbyggð með áherslu á …
Bjarni spyr hvort áætlanir um þétta borgarbyggð með áherslu á almenningssamgöngur með léttlestum eða hraðvögnum séu raunhæfar út frá þróun samfélags og markaðar síðustu árin. mbl.is/Golli

Um 90% af uppbyggingu byggðar í Reykjavík næsta aldarfjórðunginn verður innan núverandi byggðamarka á þéttingarsvæðum. Uppbyggingin virðist nokkuð einhæf, mest 4-5 hæða fjölbýli og nær engin sérbýli. Umrædd skipulagsstefna er svipuð og í nágrannaborgum, en huga þarf vel að viðráðanlegum áföngum á þeirri vegferð.

Er þetta meðal þess sem kemur fram í erindi Bjarna Reyn­ars­sonar skipu­lags­fræðing­s á Fasteignaráðstefnunni sem fram fer í fyrramálið. Hann gagnrýnir stefnu og skipulag Reykjavíkurborgar og höfuðborgarsvæðisins um þétta borgarbyggð og vistvænar samgöngur.

Bjarni segir þrenns konar skipulagsvanda í Reykjavík um þessar mundir. Fjölgun ferðamanna og hótel eru að gjörbreyta miðborginni, húsnæðisskortur er mikill og sérstaklega erfitt er fyrir ungt fólk að eignast fyrstu íbúð. Umferðarþungi eykst stöðugt. Hann spyr hvað verður gert varðandi þennan vaxandi umferðarþunga á meðan beðið er eftir borgarlínunni.

Borgir og borgarsvæði ganga iðulega í gegnum vaxtar- og stöðnunartímabil. Eftir tímabil stöðnunar í kjölfar bankahruns 2008 hófst mikið vaxtarskeið á höfuðborgarsvæðinu eftir 2012 sem m.a. lýsir sér í hraðri uppbyggingu hótela og gististaða í miðborginni samfara örri fjölgun erlendra ferðamanna,“ segir Bjarni og bendir á að yfirbragð Reykjavíkur einkennist enn af smágerðri og dreifðri byggð.

Bjarni spyr hvort áætlanir um þétta borgarbyggð með áherslu á almenningssamgöngur með léttlestum eða hraðvögnum séu raunhæfar út frá þróun samfélags og markaðar síðustu árin. 

„Í skipulagssögu Reykjavíkur eru mörg dæmi um stórar áætlanir sem seint eða ekki hafa komist til framkvæmda,“ segir Bjarni og spyr hvort sú framtíðarborg sem kynnt var upp úr aldamótum, þar sem stefnt var að þéttari byggð, sé fyllilega í samræmi við óskir íbúa og atvinnulífs.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert