Harður árekstur á Suðurlandsvegi

Fólksbíll og vöruflutningabíll lentu í árekstri á Suðurlandsvegi.
Fólksbíll og vöruflutningabíll lentu í árekstri á Suðurlandsvegi. mbl.is/Árni Sæberg

Fólksbíll og vöruflutningabíll lentu í árekstri á Suðurlandsvegi, við Lambafells-afleggjara fyrir neðan Litlu kaffistofuna á tólfta tímanum. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins voru tækjabíll og sjúkrabíll sendir á vettvang en ekki er um alvarleg slys á fólki að ræða. Einn var fluttur á slysadeild, samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra í slökkviliðinu. 

Hálka og éljagangur er á Hellisheiði en hálka í Þrengslum. Hálka eða hálkublettir er á flestum leiðum á Suðurlandi og eitthvað um éljagang, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Hálka eða hálkublettir er á Vesturlandi. Hálka er á Holtavörðuheiði.

Á Vestfjörðum er hálka og hálkublettir á flestum leiðum. Þungfært er úr Bjarnarfirði á Ströndum norður í Árneshrepp.

Hálka, hálkublettir eða snjóþekja er á Norðurlandi og eitthvað um éljagang. Ófært er á Hólasandi.

Á Austurlandi er hálka, hálkublettir eða snjóþekja á flestum leiðum. Ófært er á Breiðdalsheiði og Öxi.

Hálkublettir eða snjóþekja er víða með Suðausturströndinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert