Fékk róandi sprautu

mbl.is/Þórður

Hæstiréttur staðfesti í dag fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir spænskum karlmanni sem grunaður er um að hafa nauðgað tveimur konum og káfað á þeirri þriðju á hóteli á Suðurlandi um þarsíðustu helgi. Hann verður í haldi fram til 17. mars næstkomandi. Maðurinn var handtekinn á vettvangi. Konurnar voru í miklu uppnámi þegar þær tilkynntu um meint brot. Sjúkraliði þurfti að sprauta aðra þeirra niður.

Konurnar tvær sem hann er grunaður um að hafa nauðgað voru sofandi í rúmi sínu þegar hann er sagður hafa brotið gegn þeim. Þær náðu að ýta honum ofan af sér. Í framburði lögreglu sagðist hann hafa farið inn á þrjú herbergi umrætt sinn og að hann hafi haft kynferðismök við tvær konur. Framburður hans var á þann veg að kynferðismökin hafi verið með samþykki brotaþolanna og hann síðan látið af háttsemi sinni þegar þær hafi beðið hann um að hætta. Hann sagði jafnframt þetta vera „misskilning“. Framburður mannsins er sagður ótrúverðugur og í andstöðu við framburð kvennanna í úrskurði Hæstaréttar. 

Sú þriðja, sem hann káfaði á, var einnig í rúmi sínu á hótelherberginu. Hún tilkynnti um brotið tveimur dögum síðar. Í framburði lögreglu sagðist hann hafa verið að leita að tóbaki þegar hann káfaði á konunni innanklæða.

Fram kom í skýrslutöku yfirmanns mannsins að hann hafi rætt sérstaklega við hann og beðið hann að fara varlega í neyslu áfengis. Ástæðan hafi verið sú að vitnið hafi áður orðið þess áskynja að kærði ætti til að tapa stjórn á hvötum sínum þegar hann er undir áhrifum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert