Elsti Íslendingurinn látinn

Georg Breiðfjörð Ólafsson.
Georg Breiðfjörð Ólafsson. Ljósmynd/Aðsend

Georg Breiðfjörð Ólafsson, sem var elsti núlifandi einstaklingur á Íslandi, lést í gær, miðvikudaginn 22. febrúar, á Dvalarheimili Stykkishólms. Georg var jafnframt elstur karla hér á landi. Hann var fæddur 26. mars 1909 og vantaði því um einn mánuð upp á það að verða 108 ára.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá syni hans, Ágústi Georgssyni.  

Tilkynningin í heild sinni: 

„Georg Breiðfjörð var fæddur og uppalinn í Akureyjum við Skarðsströnd í Dalasýslu. Foreldrar hans voru hjónin Ólafur Magnús Sturlaugsson og Ágústa Sigurðardóttir, ábúendur í Akureyjum 1905-1927. Á undan honum bjuggu foreldar Ólafs þar, þau Herdís Jónsdóttir og Sturlaugur Tómasson.

Akureyjar voru hæst metna jörðin á Breiðafirði á eftir Flatey og jafnframt sú næsthæsta í Skarðshreppi á eftir Skarði.

Kennari Georgs var skáldið Jóhannes úr Kötlum og tvímenntu þeir í rúmi frostaveturinn mikla 1918 en fraus samt sængin ofan á þeim.

Árið 1927 keyptu foreldrar Georgs jörðina Ögur við Stykkishólm og bjó fjölskyldan þar til 1940 er hún flutti til Stykkishólms og átti Georg heima þar síðan.

Georg var smiður að iðn og vann við húsbyggingar í Stykkishólmi og nágrannahéruðum og stundaði enn fremur skipasmíðar um áratugi. Síðast vann hann í skipasmíðastöðinni Skipavík. Hann var eftirsóttur til vinnu og þótti afar laghentur.

Eiginkona Georgs var Þorbjörg E. Júlísdóttir frá Bjarneyjum á Breiðafirði, seinna Geirmundarstöðum á Skarðsströnd, og eignuðust þau hjónin þrjá syni. Barnabörnin eru fjögur og barnabarnabörnin tvö.

Langlífi er í ætt Georgs. Báðar ömmur hans urðu 95 ára, föðurafi hans 83 ára og annar bróðir hans rétt tæplega 100 ára.

Georg þakkaði langlífi sitt ekki mataræði. Hann borðaði allan venjulegan mat, bæði saltaðan, súran og hertan, fisk, sel, lambakjöt, sjófugl, egg og annað sem var í boði, fremur lítið af grænmeti en mikinn sykur. Georg varð heiðursborgari Stykkishólms fyrir nokkrum árum.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert