Easy Jet snéri frá vegna veðurs

Töluverður fjöldi farþega kom snemma í Leifsstöð til að vera …
Töluverður fjöldi farþega kom snemma í Leifsstöð til að vera á undan veðrinu. mbl.is/Ómar Óskarsson

Verulega slæmt veður er nú á Suðurnesjunum og þurfti flugvél Easy Jet, sem var að koma frá Luton á Englandi frá að hverfa eftir að hafa reynt lendingu á Keflavíkurflugvelli skömmu fyrir hádegi.

Flugvél SAS sem var að koma frá Osló sveimaði þá í nokkurn tíma yfir Keflavíkurflugvelli áður en hún náði að lenda um hálfeitt. Að sögn Guðna Sigurðssonar, upplýsingafulltrúa Isavia, er það flugmanna að meta sjálfir hvort þeir lenda þegar svona viðrar.

Hann segir ekki fleiri vélar hafa snúið frá. „Það er hins vegar verið að fresta mikið flugi hjá Icelandair og WOW air, þannig að vélar þeirra eru að koma síðar inn og þá seinkar Ameríkufluginu líka," sagði Guðni. WOW air geri ráð fyrir brottförum í kringum 18.30, en Icelandair ætli að vera eitthvað fyrr á ferðinni.

„Ef Reykjanesbrautin verður hins vegar lokuð til fimm, þá þurfa farþegar líka að komast á staðinn. Við hjá Isavia erum núna að skipuleggja móttökuna, þannig að þetta gangi allt því þetta er náttúrlega rosalega margt fólk sem verður að fara í gegnum flugstöðina á sama tíma.“

Guðni segir töluverðan fjölda fólks hafa komið í Leifsstöð fyrir hádegi til að vera á undan veðrinu og það væsi ekki um þá sem þar bíði nú eftir flugi. „Síðan kemur stór hópur þegar veðrinu slotar aftur, þannig að þetta verða svona tveir hápunktar í stað þess að dreifast yfir nokkra tíma.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert