„Ég hef sjaldan upplifað verri daga“

mbl.is/Eggert

„Ég ætla ekki að lýsa þeirri angist, þeim ótta og því varnarleysi sem við fjölskyldan upplifðum við sjúkrabeð sonar okkar næstu daga meðan við biðum milli vonar og ótta um hverjar afleiðingar þessa hroðalega verknaðar yrðu. Ég hef sjaldan upplifað verri daga,“ segir Runólfur Ágústsson, fyrrverandi rektor Háskólans á Bifröst, á Facebook-síðu sinni þar sem hann fjallar um grófa líkamsárás sem sonur hans Eyvindur Ágúst, kærasta Eyvindar og vinur þeirra urðu fyrir aðfararnótt síðasta sunnudags í Hafnarstræti í Reykjavík.

Þau þrjú komu út af skemmtistað við lokun um klukkan fjögur og ákváðu þá að fá sér bita á leiðinni heim. Hópur fólks réðist þá á þau og misþyrmdi. Kærasta Eyvindar og vinur þeirra sluppu með mar og skrámur en Eyvindur hlaut hins vegar heilablæðingu. Þau höfðu aldrei séð árásarfólkið fyrr og þekktu það ekki. Eyvindur komst loks til meðvitundar á miðvikudaginn og er að sögn Runólfs allur að hressast. Læknar telja að hann eigi ekki eftir að verða fyrir varanlegu tjóni vegna árásarinnar. „Slíkt var og er langt í frá sjálfgefið.“

Hægt að draga úr ofbeldi og gera betur

„Sumir segja að fólk eigi ekki að vera á ferli drukkið í miðbænum eftir klukkan 3 að nóttu um helgar. Með slíku er verið að varpa ábyrðinni á ofbeldinu af gerendum yfir á þolanda. Aðrir benda á tölfræði um að glæpatíðni hafi lækkað. Það kann að vera rétt en tölfræði skiptir litlu fyrir þolanda ofbeldis. Það verður ekkert betra að verða fyrir slíku þótt slíkt sé ekki algengt. Ofbeldi er ofbeldi og sá sem upplifir slíkt upplifir ekki tölfræði. En við getum hins vegar dregið úr ofbeldi og gert betur,“ segir Runólfur í skrifum sínum á Facebook.

Runólfur Ágústsson.
Runólfur Ágústsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Með einföldum og ódýrum aðgerðum væri að hans mati hægt að margfalda öryggi borgaranna í Reykjavík. Leggur hann meðal annars til stóraukna viðveru lögreglunnar í miðbænum um helgar. Tímabundin lögreglustöð í miðborginni um helgar gæti skipt miklu máli. Reykjavík sé rökkvuð borg og að bæta þurfi götulýsingu á almanna færi líkt og til að mynda í Hafnarstræti þar sem finna megin mörg sérstaklega illa lýst framkvæmdasvæði. Slík skuggasvæði séu utan eftirlits og öryggis.

Ráðamenn taki málið föstum tökum

Ennfremur þurfi að koma upp fleiri og betri eftirlitsmyndavélum í miðborg Reykjavíkur. Bendir hann á að þær „fáu og fátæklegu myndavélar“ sem verið hafi til staðar hafi komið að miklu gagni við að varpa ljósi á hörmulegt hvarf og lát Birnu Brjánsdóttur. Náist þeir sem réðust á son hans, kærustu og vin þeirra verði það vegna slíkra eftirlitsmyndavéla. Misskilningur sé að persónufrelsi sé þar í húfi enda sé ekki verið að ræða myndatökur í einkarýmum fólks heldur á götum úti þar sem þúsundir séu á ferli. Þar á meðal ofbeldismenn.

Hvetur Runólfur að lokum Dag B. Eggertsson, borgarstjóra í Reykjavík, Sigríði Andersen dómsmálaráðherra og Sigríði Björk Guðjónsdóttur lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins til þess að taka málið föstum tökum. „Börnin okkar eiga rétt á því að fara um borgina okkar án tillits til þess hvort þau eru drukkin eða ekki, án tillits til þess hvernig þau eru klædd og án tillits til þess hvenær þau eru á ferli. Þau eiga rétt á því að þeim sé ekki misþyrmt, að þeim sé ekki nauðgað eða að þau séu ekki drepin. Þetta gildir um okkur hin líka.“

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu er málið í rannsókn og unnið að því að upplýsa það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert