Fimm mál endurupptekin

Sexmenningarnir sem voru sakfelldir. Efri röð f.v.: Sævar Ciesi­elski, Erla …
Sexmenningarnir sem voru sakfelldir. Efri röð f.v.: Sævar Ciesi­elski, Erla Bolladóttir og Kristján Viðar Viðarsson. Neðri röð f.v.: Tryggvi Leifsson, Albert Kla­hn Skaftason og Guðjón Skarphéðinsson. mbl

Endurupptökunefnd hefur fallist á endurupptökubeiðni fimm manna sem sakfelldir voru í tengslum við Guðmundar- og Geirfinnsmálin á áttunda áratugnum. Beiðni Erlu Bolladóttur um endurupptöku er hafnað. 

Hún tekur þar með, að mestu leyti, undir sjónarmið starfshóps sem innanríkisráðherra skipaði og taldi „veiga­mikl­ar ástæður fyr­ir“ endurupptöku og sett­um rík­is­sak­sókn­ara í mál­inu, Davíð Þór Björg­vins­syni, sem mælti í kjölfarið með að svo yrði gert.

Í ákvörðun endurupptökunefndar, um mál Erlu, sem fór fram á endurupptöku hvað varðar rangar sakargiftir, segir orðrétt: 

„Hafnað er beiðni endurupptökubeiðanda um endurupptöku á dómi í hæstaréttarmálinu nr. 214/1978 hvað varðar sakfellingu hennar fyrir brot á 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga, með því að hafa borið þær röngu sakir á Einar Gunnar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen, að þeir hefðu átt hlut að dauða Geirfinns Einarssonar og smyglbrotum.“

Fimm sakborninganna eða aðstandendur þeirra fóru fram á endurupptöku. Davíð Þór hafði sjálfur frumkvæði að því að fara fram á endurupptöku í máli þess sjötta.

Sexmenningarnir eru Erlu Bolla­dótt­ir, Al­bert Kla­hn Skafta­son­, Sæv­ar Ciesi­elski, Kristján Viðar Viðars­son­, Tryggvi Rún­ar Leifsson og Guðjón Skarp­héðins­son. Þau væru dæmd í 1-17 ára fangelsi í Hæstarétti árið 1980. Sævar og Tryggvi Rúnar eru látnir. Þau voru á aldrinum 20-32 ára er þau voru handtekin.

mbl

Guðmundur og Geirfinnur hurfu sporlaust árið 1974, annar í janúar og hinn í nóvember. Þrátt fyrir að eng­in lík hafi fundist, eng­inn staðfest­ur brota­vett­vang­ur hafi verið til staðar, eng­in áþreif­an­leg sönn­un­ar­gögn legið fyr­ir og framb­urður vitna og sak­born­inga verið óáreiðan­leg­ur voru sexmenningarnir sakfelldir.

Sérfræðingar sem gerðu mat á áreiðanleika framburða (játninga) fólksins, sem birt var í skýrslu starfshóps innanríkisráðherra, sögðu að allt þetta þýddi að „grund­völl­ur lög­reglu­rann­sókn­ar­inn­ar byggði á hæpn­um for­send­um.“ 

Þá töldu þeir það „hafið yfir allan vafa“ að játningar allra sex sakborninganna, bæði hjá lögreglu og fyrir dómi, hafi verið óáreiðanlegar. 

Erla var ákærð fyrir aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar. Hún hlaut þriggja ára dóm. Sævar var ákærður fyrir að bana báðum mönnunum, Guðmundi og Geirfinni. Hann var dæmdur í sautján ára fangelsi. Kristján Viðar var ákærður fyrir að bana Geirfinni og hlaut sextán ára fangelsisdóm. Tryggvi Rúnar var ákærður fyrir að hafa banað Guðmundi og hlaut 13 ára dóm. Albert var ákærður fyrir að tálma rannsókn og fékk tólf mánaða dóm. Guðjón var ákærður fyrir að bana Geirfinni og fékk tíu ára dóm.

mbl

Fer nú til Hæstaréttar

Það sem næst mun gerast í málinu er að settur ríkissaksóknari um leggja málið fyrir Hæstarétt aftur á grundvelli sömu ákæru, að því viðbættu að það eru komin ný skjöl í málið, sagði Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Erlu og Guðjóns, í samtali við Morgunblaðið í dag. 

Ragnar sagði að saksóknari gæti gert kröfur. „Hann getur krafist þess að sexmenningarnir verði sakfelldir fyrir mannshvörfin og rangar sakargiftir, en endurupptakan snýr eingöngu að þeim atriðum, ekki að póstsvikum eða innflutningi á fíkniefnum. Ef saksóknari gerir það, þá þarf hann auðvitað að sanna upp á nýtt sekt þessara sakborninga.

Saksóknari getur líka ákveðið að krefjast sýknu af mannshvörfunum og röngum sakargiftum, og þá er dómstóllinn bundinn af þeirri kröfu,“ sagði Ragnar.

Ragnar segir að komi til endurupptöku verði hver sexmenninganna með sinn eða sína verjendur, en bendir um leið á að þeir SævarCiesielski og Tryggvi Leifsson eru látnir, þannig að ekki sé hægt að dæma þá upp á nýtt.

mbl
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert