Megum ekki láta áreiti taka yfir lífið

Guðjón fór út að leika í snjónum kærkomna sem skreytti …
Guðjón fór út að leika í snjónum kærkomna sem skreytti náttúruna í gær og fyllti daginn af birtu. mbl.is/RAX

Sumir segja að Guðjón Svansson sé gegnheill eins og rússneskur rekaviður en á sama tíma mjúkur maður. Hann lætur verkin tala og er óhræddur við að stökkva og sleppa öryggisnetinu. Guðjón heldur námskeið og fyrirlestra um nauðsyn þess að fólk staldri við og einfaldi líf sitt.

Lífið segir hann vera ferðalag sem við ráðum sjálf hvernig við förum í gegnum, hvort við njótum þess eða ekki. Hann er talsmaður þess að við hættum að flækja hlutina og hættum að vera á stanslausum spretti í gegnum lífið.

Einfaldara líf snýst um að greina hvað skiptir mann mestu máli í lífinu og gera eitthvað í því. Vefsíðan mín er fyrir þá sem vilja einfalda líf sitt,“ segir Guðjón Svansson, en hann heldur úti vefsíðunni Njóttu ferðalagsins.is, þar sem hann kemur vangaveltum sínum á framfæri sem hann vonast til að verði öðrum hvatning til að taka stjórn á lífi sínu og láta draumana rætast. Guðjóni finnst gott að hafa mörg járn í eldinum og hann skilgreinir sig á eftirfarandi hátt á vefsíðunni: Íslendingur, ferðalangur, eiginmaður, fjögurra stráka faðir, rithöfundur, fyrirlesari, ráðgjafi, þjálfari, mentor og nemandi.
Heimsreisa 2009. Í Huacachina í Perú. Viktor Gauti, Arnór Ingimundur …
Heimsreisa 2009. Í Huacachina í Perú. Viktor Gauti, Arnór Ingimundur og Patrekur Orri búa sig undir að renna sér í sandöldum. Foreldrar að baki.

„Ég vil ekki þurfa að treysta alfarið á eitt starf. Ég leiði æfingahóp sem kemur heim til mín á morgnana að æfa, en við hjónin breyttum bílskúrnum hjá okkur í lítinn æfingasal en við æfum líka úti. Ég er líka í hlutastarfi sem ráðgjafi hjá Hagvangi og held fyrirlestra og námskeið um orkustjórnun, með áherslu á einstaklinginn. Þar fer ég yfir það hvernig fólk getur aukið orku sína bæði heima og í vinnu, með því að hafa stjórn á öllu áreitinu í nútímalífinu. Þessi námskeið ganga út á að leiðbeina fólki í að byggja upp andlegt og líkamlegt heilbrigði. Þetta er hugsað til að hjálpa fólki að takast á við allt áreitið, samfélagsmiðlana og fleira, finna leiðir til þess. Hver og einn verður að stýra þessu áreiti, við megum ekki láta það taka yfir líf okkar.“

Vala, eiginkona Guðjóns, með sonunum Snorra og Patreki, í Tiger …
Vala, eiginkona Guðjóns, með sonunum Snorra og Patreki, í Tiger Kingdom, athvarfi/verndarsvæði fyrir tígrisdýr, í Chiang Mai í Taílandi.

Verum með krökkunum í stað þess að hanga í símanun

Guðjón segist í sínu persónulega lífi hallast meira og meira að því einfalda. „Maður fær miklu meira út úr því einfalda í lífinu, að vera úti í náttúrunni, borða einfaldan mat og vera ekki alltaf að flækja hlutina. Að gera eitthvað með krökkunum sínum í stað þess að hanga í símanum, og láta ekki alla sína orku fara í vinnuna. Við þurfum að spyrja okkur að því hvort það sé mikilvægt að vinna mikið til að geta keypt eitthvað. Við eigum að njóta þess að vera með börnunum á meðan þau eru börn, tíminn er svo fljótur að líða og þau eru flogin úr hreiðrinu áður en við er litið, og þá er of seint að ætla að gera eitthvað með þeim sem uppalandi.“ Guðjón og fjölskyldan hans, eiginkonan og synirnir fjórir, fóru í heimsreisu árið 2008 og ferðuðust í heilt ár.

Guðjón með sonum sínum Viktori, Arnóri, Orra og Snorra.
Guðjón með sonum sínum Viktori, Arnóri, Orra og Snorra.

„Eftir það hef ég verið að halda fyrirlestra sem kallast Stökktu, þar sem ég hvet fólk til að láta draumana rætast. Ég skrifaði líka í framhaldinu bók sem heitir rétt eins og vefsíðan mín, Njóttu ferðalagsins, en það er pabbabók, sem gagnast líka fyrir mömmur, afa og ömmur. Þar fjalla ég meðal annars um það að vera pabbi og um barnauppeldi. Ég er að þróa fyrirlestra upp úr bókinni um foreldrahlutverkið, sérstaklega fyrir pabba, sem ég ætla að fara með í skóla.“

Vildi ekki missa af sonunum

Guðjón segist hafa velt föðurhlutverkinu fyrir sér út frá kynslóðunum á undan honum.

„Ég skoðaði hvað pabbi minn gerði og hvað hann gerði ekki í sínu föðurhlutverki. Hans hlutverk var að vinna og hann var mikið fjarverandi. Mig langaði ekki að vera fjarverandi í uppeldi minna barna, svo ég sagði upp vinnunni sem ég var í hjá Útflutningsráði. Það var mjög skemmtileg vinna, en ég var mikið í burtu, líka í útlöndum, og ég áttaði mig á að ég vildi ekki hafa líf mitt þannig. Ég vildi ekki missa af sonum mínum. Svo ég lokaði þessum kafla í lífinu og stökk, ég sleppti öryggisnetinu, hætti í vinnunni og fór í ferðalag með þeim sem mér þykir vænst um. Og sé ekki eftir því, það var virkilega frelsandi og mikil áskorun.“

Guðjón með hópinn sinn í garðinum heima við æfingar.
Guðjón með hópinn sinn í garðinum heima við æfingar.

Guðjón vill að fólk nýti þetta eina líf sem það á. „Hvers vegna er maður að eignast fjölskyldu ef maður gefur sér ekki tíma til að sinna henni? Það er ekki nóg að feður skaffi lifibrauð með vinnu sinni, börnin þeirra þurfa á því að halda að þeir verji með þeim tíma. Það sama á auðvitað við um mömmur. Ég hvet fólk til að staldra við og spyrja hvernig það vilji hafa líf sitt, og gera eitthvað í því,“ segir Guðjón og bætir við að hver og einn þurfi að finna sitt jafnvægi, og hætta að reyna að uppfylla kröfur sem koma utan frá.

„Við þurfum ekki að eiga allt eða gera allt eins og gaurinn við hliðina. Við þurfum að láta okkur standa á sama um hvað öðrum finnst um okkur, þora að vera við sjálf.“

Íslendingar eru vertíðarfólk

Guðjón býr greinilega yfir nægri orku og þegar hann er spurður að því hvort hann sé ofvirkur, segir hann það alls ekki vera svo.

„Ég var til dæmis handónýtur unglingur sem vakti fram á nætur og var þreyttur og pirraður á morgnana. Ég var kvöldmaður frameftir aldri en ég varð morgunmaður þegar ég fór að kenna sprikl á morgnana. Nú finnst mér best að vakna fyrstur af öllum heima og eiga minn tíma með kaffibollanum eða fara út að ganga áður en vinnudagurinn byrjar,“ segir hann og bætir við að honum finnist mikilvægt að sá sem sé að miðla einhverju, kenna og boða, hann fari eftir því sjálfur.

Guðjón ásamt syninum Arnóri í Koh Tao í Taílandi um …
Guðjón ásamt syninum Arnóri í Koh Tao í Taílandi um síðustu jól.

„Þess vegna hef ég prófað þetta allt á mér sem ég er að miðla. Við getum valið hvað við viljum einfalda í lífi okkar og hvað ekki, sumt er líka hægt að einfalda stundum, og stundum ekki. Hver og einn þarf að finna sinn takt. Við Íslendingar erum vertíðarfólk, við tökum hlutina í skorpuvinnu, við kunnum að taka þéttar tarnir og í því er vissulega kraftur, en við megum ekki festast í þessu, við verðum að læra að slaka á og finna líka rólega taktinn í okkur og njóta hans. Við megum ekki vera alltaf á þessari vertíð,“ segir Guðjón að lokum og hlær.

Fílabað. Guðjón með Patreki Orra og Snorra Val í Laos …
Fílabað. Guðjón með Patreki Orra og Snorra Val í Laos í fyrra.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert