Viðvaranir sendar á ferðaþjónustuna

mbl.is/Styrmir Kári

Björgunarsveitir hafa verið kallaðar út á Reykjanesi vegna foks á lausamunum og eins eru björgunarsveitarmenn að aðstoða starfsmenn Vegagerðarinnar við lokanir á vegum. Sendar voru út viðvaranir til tæplega þrjú þúsund ferðaþjónustufyrirtækja í gær þar sem varað var við veðrinu sem væri í vændum, segir Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjörg. 

Hann segist vonast til þess að allar þessar viðvaranir og lokanir verði til þess að fólk átti sig á því að ekkert ferðaveður er á landinu öllu í dag. Reynslan sýni að lokanir Vegagerðarinnar skila góðum árangri. „Við vonum að fólk haldi sig heimavið og fari ekki í ferðalög. Þessar forvarnir virðast gefa góðan árangur í þessi skipti sem eitthvað hefur verið að veðri og við sent frá okkur viðvaranir,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is en björgunarsveitarfólk um allt land er í viðbragðsstöðu ef þörf er á aðstoð þeirra. 

Ferðaþjónustan var beðin um að koma þeim boðum áleiðis til sinna viðskiptavina að ekkert ferðaveður yrði á Íslandi í dag, sama hvaða landsfjórðungur ætti í hlut. 

Einhver íþróttafélög hafa þegar tekið ákvörðun um að aflýsa útiæfingum í dag enda spáin mjög slæm. 

Vegagerðin er þegar farin að loka vegum enda má búast við að færð spillist mjög víða og ekkert ferðaveður verði á landinu.

09:00 – 18.00 Eyjaföll og Hellisheiði.

11:00 – 18:00 Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði.

12:00 – 17:00 Reykjanesbraut.

12:00 – 18:00 Hafnarfjall.

09:00 – 18:00 Kjalarnes 

15:00 – 21:00 Holtavörðuheiði og Brattabrekku.

16:00 og fram á kvöld Mývatns- og Möðrudalsöræfi, Fjarðarheiði, Fagridalur og Oddsskarð.

Viðvörun frá veðurfærðingi Veðurstofu Íslands:

Suðaustan stormur eða rok (20-28 m/s) gengur norðaustur yfir landið í dag með snjókomu og síðar slyddu eða rigningu, en mikilli úrkomu á Suðausturlandi og Austfjörðum þegar líður á daginn. Veðrið nær hámarki suðvestantil upp úr hádegi, en norðaustantil undir kvöld. Veðrið fer að ganga niður suðvestanlands milli kl 3 og 5 í dag, en norðaustantil um miðnætti. Einnig má búast má við mjög hvössum vindhviðum við fjöll víðast hvar á landinu. Á hálendinu má búast við óveðri með blindhríð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert