Bjóst við annarri niðurstöðu

Erla Bolladóttir við meðferð Guðmundar- og Geirfinnsmálanna í Hæstarétti.
Erla Bolladóttir við meðferð Guðmundar- og Geirfinnsmálanna í Hæstarétti.

Sú niðurstaða endurupptökunefndar að synja Erlu Bolladóttur um upptöku dóms hennar vegna Guðmundar- og Geirfinnsmálsins kom henni í opna skjöldu. Hún sagðist í Kastljósi Ríkisútvarpsins í kvöld ekki hafa átt von á þeirri niðurstöðu. Úrskurður nefndarinnar hefði verið ansi mikið högg.

Erla var sakfelld á sínum tíma fyrir að hafa borið fjóra karlmenn röngum sökum í málinu en sýknuð af aðild að hvarfi Geirfinns Einarssonar. Var hún dæmd í þriggja ára fangelsi og sat inni frá 27. október 1980 til 9. ágúst árið eftir en fékk síðan reynslulausn. Endurupptökunefnd segir engin gögn liggja fyrir um að Erla hafi verið knúin eða hvött til þess að bera mennina fjóra röngum sökum. Hún hefur haldið því fram að rannsóknarlögreglumenn hafi beitt hana miklum þrýstingi til þess að vera samstarfsfúsa í málinu.

Erla sagði í Kastljósi að þegar hún hafi verið látin laus hafi lögreglan verið í daglegum samskiptum við hana. Hringt í hana og komið heim til móður hennar þar sem hún hafi búið á þessum tíma. Hún hafi verið fullkomlega háð þessum rannsóknarlögreglumönnum. Þeir hafi haft öll ráð hennar í hendi sér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert