Bollur sem þarf ekki að borða

Bolla ársins.
Bolla ársins. Ljósmynd/UNICEF

Bolla ársins hjá UNICEF á Íslandi er óhefðbundin, svokölluð vatnshreinsibolla. Ein slík bolla kostar 420 krónur og fyrir hverja keypta vatnshreinsibollu útvegar UNICEF 500 vatnshreinsitöflur.

Kemur þetta fram á heimasíðu UNICEF en þar eru kynntar óhefðbundnar bollur sem gera gagn og hjálpa börnum. „Þær kosta jafnmikið og bolla í bakaríi en munurinn er sá að þú þarft ekki að borða þær,“ segir á heimasíðu UNICEF.

Auk vatnshreinsibollunnar er boðið upp á námsgagnabollu en hún kostar 456 krónur og tryggir sjö börnum námsgögn. Bóluefnabollan kostar 483 krónur og útvegar kostnaðurinn 20 skammta af bóluefni gegn mænusótt.

„Við hjá UNICEF á Íslandi höfum verið að grínast með að þarna sé engin matarsóun, ekkert umbúðavesen, engar biðraðir í bakaríi og svo sé þetta auðvitað allt vegan. Við elskum bolludaginn, erum búin að vera í miklum bollugír í heila viku og hvetjum fólk til að fá sér sem flestar bollur – bæði hefðbundnar og hjálpargagnabollur,“ segir Sigríður Víðisdóttir, kynningarstjóri og upplýsingafulltrúi UNICEF á Íslandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert