Hittumst og spilum Swift á sama neti

Erlendur S. Þorsteinsson fór að hjóla fyrir nokkrum árum, eftir …
Erlendur S. Þorsteinsson fór að hjóla fyrir nokkrum árum, eftir að hafa verið á sófanum í áratugi. Hann er nú einn skipuleggjenda Íslandsmótsins í Swift. mbl.is/Eggert

Fyrsta Íslandsmótið í Zwift verður haldið í byrjun næsta mánaðar, þegar hópur hjólreiðamanna kemur saman í húsakynnum CCP 4. mars og reynir með sér í innanhússhjólreiðum. Þeir Erlendur S. Þorsteinsson og Leifur Geir Hafsteinsson eiga heiðurinn af skipulagningu mótsins, sem þeir vona að verði bara það fyrsta af mörgum.

„Okkur langaði að halda hjólamót inni við og vera á sama stað,“ segir Erlendur sem fór að hjóla fyrir nokkrum árum eftir að hafa verið á sófanum í áratugi. „Þetta er svipað og LAN-partíin voru í gamla daga, þegar menn hittust og spiluðu saman Counterstrike á sama netinu, en nú ætlum við að hittast og spila Zwift saman á sama netinu.“ Á bak við þá Erlend og Leif Geir er hjólaliðið Team Topcon.

Fyrir þá sem ekki eru innvígðir í hjólaíþróttina upplýsist hér með að hjólaáhugamenn nýta sér svonefnda hjólaþjálfa yfir vetrartímann þegar færð er slæm og hjóla þá inni við. Hjólið er þá sett á þjálfann og álagið stillt eftir hjólaleiðinni sem er verið að æfa.

Ísland eitt hjólasamfélag yfir vetrartímann

Það getur hins vegar reynt á þolrif jafnvel hörðustu hjólaáhugamanna að  hjóla einn inni í stofu og því var netleikurinn Zwift, sem kom á markað 2015, sannkallaður hvalreki fyrir hjólaunnendur sem þar með gátu farið að hjóla saman í netheimum.

Erlendur segir þá félaga hafa fengið fín viðbrögð við Íslandsmótinu. „Þetta er náttúrulega í fyrsta skipti sem við gerum eitthvað svona þannig að við rennum svolítið blint í sjóinn, en fólk er þó mjög jákvætt fyrir þessu,“ segir hann.

„Síðan verðum við að sjá hversu margir eru til í að taka með sér hjólið, hjólaþjálfann, tölvuna, viftuna og annan búnað niður í CCP.“ Það er nefnilega töluverður útbúnaður sem fylgir innihjólreiðum, eða eins og Erlendur segir:  „Þetta er ekki bara að hoppa út á hjólið.“

Swift er netleikur sem gerir hjólaáhugafólki kleift að hjóla saman …
Swift er netleikur sem gerir hjólaáhugafólki kleift að hjóla saman með aðstoð tölvunnar yfir vetrarmánuðina. mbl.is/Eggert

Hjóla með hópum frá Bretlandi og Svíþjóð

Rýmið sem mótið verður haldið í hjá CCP rúmar vel 50 manns og eiga þeir félagar von á að sambærilegur hópur taki þátt í mótinu heiman frá sér. „Það er fólk á Akureyri og Ísafirði sem hjólar reglulega með okkur höfuðborgarbúunum og það er hluti af snilldinni við Zwift,“ segir Erlendur. „Yfir veturinn eru allir á Íslandi að hjóla saman.“ Hann bætir við að fólk hittist síðan reglulega á sumrin, enda séu margir að hjóla saman um helgar eða séu félagar í hinum ýmsu hjólafélögum.  

Þátttakendur í Íslandsmótinu kunna líka vel að leynast utan landsteinanna, því öllum er velkomið að taka þátt og íslenskir Zwift-arar hafa einnig verið að hjóla með hópum frá Svíþjóð, Bretlandi og ýmsum öðrum löndum.

Það verða þó bara þeir þátttakendur sem hjóla í húsakynnum CCP sem munu telja með þegar stiginn verða reiknuð út. „Við viljum nefnilega geta tryggt að hjólaþjálfinn sé rétt stilltur,“ útskýrir Erlendur. „Við munum hins vegar ekki setja neinar hömlur á það hverjir taka þátt.“

Allir með á eigin forsendum

Hjóluð verður 60 km leið, sem eru þrír hringir af svonefndri London-áttu, sem er ein þeirra hjólaleiða sem Zwift býður upp á. Erlendur segir þátttakendur alla vera með á eigin forsendum og þannig geti sumir ákveðið að taka þátt í samhjóli, á meðan aðrir spretti úr spori.

Og hjólakeppnir á borð við þessar eru frekar nýjar af nálinni. „Þegar ég fór að skoða þetta þá sá ég að fyrsta mótið var haldið í Svíþjóð 6. janúar á þessu ári, þannig að þetta er nýjasta nýtt í hjólabransanum. Þetta er líka sérlega gott yfir vetrartímann því þá er maður ekki einn og yfirgefinn, heldur hefur hóp í kringum sig, jafnvel þó að það sé í gegnum tölvuna.“

Upplýsingar um mótið má finna á Facebook-síðunni: Zwift hjólarar á Íslandi (IZE)

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert