Útlendingastofnun verði lögð niður

Fjölmargir hlýddu á erindin sem flutt voru í tengslum við …
Fjölmargir hlýddu á erindin sem flutt voru í tengslum við nýja skýrslu um stöðu flóttafólks á Íslandi. mbl.is/Golli

Gert er ráð fyrir því að Útlendingastofnun verði lögð niður í núverandi mynd í tillögum til úrbóta sem sem kynntar eru í nýrri skýrslu Alþjóðamálastofnunar, sem unnin var fyrir innanríkisráðuneytið og velferðarráðuneytið, þar sem þjónusta við flóttafólk og innflytjendur er greind. Þetta er meðal þess sem kemur fram í þriðja og um leið síðasta hluta skýrslunnar.

Þess í stað verði Stofnun útlendinga- og innflytjendamála verði sett á laggirnar. Hún komi í stað Útlendingastofnunar, flóttamannanefndar og innflytjendaráðs sem verði lögð niður.

„Lagt er til að tekið verði upp nýtt samstarfsskipulag þar sem gengið er út frá aðkomu nokkurra ráðuneyta, stofnana ríkis og sveitarfélaga, og þjónustu félagasamtaka. Þar verði dómsmálaráðuneytið og velferðarráðuneytið leiðandi stofnanir í skipulögðu samstarfi sem kennt hefur verið við samhenta stjórnsýslu (Joined- up government). Með þessu samstarfi lykilráðuneyta verði mynduð ein stofnun sem miðlar upplýsingum, afgreiðir umsóknir og annast skipulag og samhæfingu á allri þjónustu við útlendinga, innflytjendur, hælisleitendur og flóttafólk á einum stað, þ.e. hér verði útfærð hugmyndin um „one-stop-shop,“ segir í skýrslunni.

Erna Kristín Blöndal, doktorsnemi í lögfræði og framkvæmdastjóri norrænnar stofnunar um fólksflutninga, og Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, dósent í opinberri stjórnsýslu og stefnumótun, kynntu tillögur að umbótum til að auka samþættingu og skilvirkni stjórnsýslunnar á fundinum í Norræna húsinu í dag.

Að sögn Sigurbjargar þýðir þetta að til verður stofnun sem ekki er opin 8-16 heldur taki hún mið af þörfinni og að þarna sé hægt að sinna öllu á einum stað.

Þó að málefni útlendinga og innflytjenda skarist falla þau lagalega í tvo flokka (útlendingar og innflytjendur, þar með taldir einnig flóttamenn með stöðu hér á landi) eða jafnvel þrjá flokka, ef atvinnuréttindi eru talin til sérstaks flokks. Þessir hópar eru á höndum tveggja ráðuneyta og með aðkomu enn fleiri ráðuneyta.

Skipting stjórnarmálefna er varða málefni útlendinga á milli ráðuneyta hefur haldist nokkuð svipuð í gegnum árin. Innanríkisráðuneytið ber ábyrgð á leið útlendinga inn í landið, heimild til að koma til landsins, rétti til dvalar, þ.á m. mati á því hvort um flóttamenn sé að ræða þegar þeir koma á eigin vegum til landsins og sækja um hæli.

Velferðarráðuneytið ber ábyrgð á félagslegum þætti þess þegar útlendingar hafa fengið rétt til dvalar hér á landi, á það við um jafnt innflytjendur og flóttafólk sem á ákveðnum tímapunkti verða innflytjendur, segir í skýrslunni.

Ekki fært allt í eitt ráðuneyti

Verkefni ráðuneytanna mætast því og skarast tímabundið hvað þetta varðar þar sem innanríkisráðuneytið, ber ábyrgð á þeim hælisleitendum sem hingað hafa komið til að óska eftir alþjóðlegri vernd. Í því felst m.a. að veita þeim húsaskjól, félagslega aðstoð og heilbrigðisþjónustu, sem og aðra þjónustu á meðan umsókn þeirra er til meðferðar.

„Í tillögum að breytingum sem hér eru kynntar er ekki gengið svo langt að færa öll verkefni tengd útlendingum í eitt ráðuneyti eins og í sumum nágrannalöndum okkar, en lagðar eru til umbætur sem hafa að markmiði að einfalda málaflokkinn svo sem kostur er. En þar eru markmið á borð við gæði, öryggi og stefnumótandi langtímasýn í málefnum innflytjenda höfð að leiðarljósi,“ segir í skýrslunni.

Innflytjendaráð í núverandi mynd verður lagt niður og verkefnum þess komið fyrir á viðeigandi stigum og sviðum þessarar nýju stofnunar, segir jafnframt í þriðja hluta skýrslunnar.

„Með þessu er ábyrgð, umsýsla og umfangsmikið samstarf um margs konar verkefni sem áður voru leyst af hendi í tilfallandi ráðum og nefndum komið fyrir í stofnanaskipulagi. Sú tillaga að koma skyldum verkefnum fyrir í stofnanaskipulagi gefur kost á samfellu í vinnu við verkefnin og þar með uppbyggingu á stofnanaminni.

Stofnanaminni varðveitir sérþekkingu, hæfni og færni sem byggist upp yfir tíma. Slík uppsöfnuð reynsluþekking er nauðsynleg til að tryggja sem best skilvirkni og gæði málsmeðferðar og þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur sem eiga sér ólíka reynslu og bakgrunn.

Með þessari nálgun má byggja upp staðgóða þverfaglega reynslu í þjónustu við hælisleitendur og flóttafólk, og veita viðeigandi viðtökur og þjónustu strax á fyrstu stigum hvers máls, hvort heldur sem einstaklingar koma eftir eigin leiðum og sækja hér um alþjóðlega vernd eða í hópi flóttamannahópa sem hingað koma í boði stjórnvalda. Viðeigandi og snemmtækar aðgerðir fyrirbyggja hugsanleg vandamál sem oft koma ekki fram fyrr en hjá annarri eða þriðju kynslóð þeirra innflytjenda sem kjósa að búa til frambúðar í nýjum heimkynnum,“ segir í skýrslunni.

Í ársbyrjun 2016 bjuggu hér á landi 26.485 einstaklingar með erlent ríkisfang, þ.e. um 8% landsmanna. Þessir einstaklingar teljast „útlendingar“ í skilningi laga um útlendinga og hefur fjölgað um 1% síðan 2014. Þeir útlendingar sem hafa lögheimili hér á landi teljast „innflytjendur“. Í þann hóp falla líka einstaklingar af erlendum uppruna sem hafa fengið íslenskan ríkisborgararétt og börn innflytjenda sem fæðast hér á landi. Þau eru skilgreind sem önnur kynslóð innflytjenda.

Samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands eru alls búsettir á Íslandi tæplega 32 þúsund innflytjendur, eða 9,6% íbúa landsins. Það er fjölgun frá árinu 2012 en síðan þá hefur þeim fjölgað úr því að vera 8,0% íbúanna upp í 9,6%. Í annarri kynslóð innflytjenda fjölgaði einnig á milli ára, þeir voru 3.846 árið 2015 en eru nú 4.158. Samanlagt eru fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 10,8% af íbúum landsins og hefur það hlutfall aldrei verið hærra.

Skýrslan í heild

Lagt er til að Útlendingastofnun verði lögð niður í núverandi …
Lagt er til að Útlendingastofnun verði lögð niður í núverandi mynd. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert