Fordómar beinast gegn múslimum

Hatursorðræða Íslendinga beinist aðallega að múslimum. Í nýrri skýrslu eru …
Hatursorðræða Íslendinga beinist aðallega að múslimum. Í nýrri skýrslu eru nefndir tveir fjölmiðlar í því sambandi auk samfélagsmiðla. AFP

Orðræða á Íslandi sem ber vitni um kynþáttafordóma hefur aukist og hefur á undanförnum árum aðallega beinst að múslimum. Þetta er áhyggjuefni að mati Evrópunefndar gegn kynþáttafordómum og umburðarleysi. Evrópuráðið birti í dag skýrslu um kynþáttafordóma á Íslandi.

„Ákvörðun borgarstjórnar Reykjavíkur að heimila byggingu á fyrstu moskunni á Íslandi og úthluta til þess lóð á góðum stað hefur verið gagnrýnd. Nokkrir stjórnmálamenn hafa látið uppi fordómafullar og skaðlegar skoðanir um múslima, og þá sérstaklega með því að mála mynd af þeim sem hryðjuverkamönnum.

Auk áberandi aukningar á íslamófóbískum ummælum á samfélagsmiðlum hefur einnig borið á andfélagslegum viðhorfum gagnvart hinsegin fólki.

Stefna stjórnvalda frá árinu 2007 um aðlögun innflytjenda hefur ekki náð markmiði sínu eða skilað æskilegum árangri. Af þeim sökum rekast innflytjendur á fjölmörg vandamál, þar á meðal í íslenskukennslu, aðgangi að upplýsingum, aðgangi að sanngjörnum aðstæðum á vinnumarkaði, og ótímabæru brotthvarfi frá námi. Skortur á aðgangi um allt land að íslenskukennslu á viðráðanlegu verði torveldar aðlögun sem og áframhaldandi vöntun á miðstöð fyrir innflytjendur í höfuðborginni sem veitir upplýsingar- og þjónustu á ýmsum tungumálum.

Í augnablikinu er engin þjóðmálastefna eða áætlun um aðlögun innflytjenda á Íslandi,“ segir í skýrslu Evrópunefndarinnar sem kom út í dag.

Nokkrir stjórnmálamenn hafa látið uppi fordómafullar og skaðlegar skoðanir um …
Nokkrir stjórnmálamenn hafa látið uppi fordómafullar og skaðlegar skoðanir um múslima og þá sérstaklega með því að mála mynd af þeim sem hryðjuverkamönnum. AFP

Nefndin fer þess á leit við íslensk yfirvöld að þau grípi til frekari aðgerða á ýmsum sviðum. Í því sambandi leggur nefndin fram ýmsar tillögur.

Lagt er til að ákvæði verði tekið upp í hegningarlögum sem mæli sérstaklega fyrir um að meta beri það sem aðstæður sem auka refsiþyngd ef kynþáttafordómar eða fordómar á grundvelli kynhneigðar eða kynvitundar liggja að baki broti.

Yfirvöld ættu að auka skilning meðal almennings og lögreglunnar um leiðir til að koma á framfæri kvörtunum um hatursorðræðu í fjölmiðlum til fjölmiðlanefndar ríkisins. Þyrfti að sjá nefndinni fyrir nægu fé og mannafla til að fylgjast með fjölmiðlum og eiga frumkvæði í því að grípa til aðgerða við brotum á fjölmiðlalögum nr.38/2011.

Stofna þarf miðstöð í Reykjavík, í líkingu við Fjölmenningar- og upplýsingasetrið á Ísafirði, þar sem innflytjendur á höfuðborgarsvæðinu hafi aðgang að þjónustu og geti leitað aðstoðar á mörgum tungumálum.

Yfirvöld ættu að innleiða endurskoðaða og ítarlega aðlögunaráætlun fyrir innflytjendur á Íslandi. Ætti hún meðal annars að ná yfir þætti eins og aðgengilega íslenskukennslu á viðráðanlegu verði, jafnrétti á vinnumarkaði og sérstuðning í námi, með markmiðum, tímamörkum, fjármögnun, velgengnivísum og vöktunar- og matskerfi.

Yfirvöld ættu að hrinda í framkvæmd áætlunum sínum í nýju aðgerðaáætluninni um aðlögun einstaklinga án ríkisborgararéttar um að koma aðlögunarmálum og þjónustu fyrir hælisleitendur á svipaðan stað og er fyrir kvótaflóttamenn, og þá sérstaklega með tilliti til húsnæðis, atvinnu og íslenskukennslu.

Borið hefur á andfélagslegum viðhorfum gagnvart hinsegin fólki á Íslandi.
Borið hefur á andfélagslegum viðhorfum gagnvart hinsegin fólki á Íslandi. mbl.is/Ómar Óskarsson

Yfirvöld ættu líka að ljúka við framkvæmdaáætlunina um málefni hinsegin fólks og þá einnig með aðgerðum sem miðist við að taka hart á hatursorðræðu gagnvart þessu samfélagi og taki einnig á einelti í skólum, segir ennfremur í skýrslunni en þar er að finna svipaðar ábendingar og koma fram í skýrslu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands sem birt var í gær. 

Tekið er fram að framfarir hafi orðið á mörgum sviðum frá því skýrsla um Íslands var gefin út árið 2011.

„Hegningarlögin eru til verndar gegn hatursorðræðu gagnvart kynhneigð eða kynvitund. Viðeigandi löggjöf hefur nú verið samþykkt af Alþingi og beðið er gildistöku á viðbótarbókun við samninginn um tölvubrot.

Ráðinn hefur verið lögreglumaður í nýja stöðu til rannsóknar á hatursglæpum á Reykjavíkursvæðinu.

Settur hefur verið upp gagnagrunnur til að fylgjast með hatursorðræðu á Netinu og þá sérstaklega aukningu á tilfellum sem beinast að múslimum. Engin gögn gefa til kynna ofbeldisverk á Íslandi á undanförnum árum vegna fordóma gagnvart kynþætti, samkynhneigðum eða transfólki.

Hvítbók um endurbætur í menntamálum var samþykkt árið 2015 og var tilgangur hennar að koma af stað umræðu og aðgerðum til endurbóta í menntamálum. Var í henni m.a. ákvæði um sérstuðning við nemendur af erlendum uppruna til þess að auðvelda þeim að öðlast lestrar- og skriftarkunnáttu á borð við innfædda.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert